Skírnir - 01.01.1968, Qupperneq 52
50
VÉSTEINN ÓLASON
SKÍRNIR
skrifaði mikla og merkilega ritgerð um samband Egils sögu og Land-
námu, sem birtist í dönsku tímariti árið 1904.4 Þar ritar hann langt
skeið um röksemdir fyrir því að Snorri hafi ritað Egils sögu; finnur
hann margt sem mæli með, en ekkert á móti. Ari síðar deildu Björn
og Finnur Jónsson um þetta í Skírni, og snerist Finnur vitanlega
öndverður gegn skoðunum Björns.5 Áður hafði hann raunar í bók-
menntasögu sinni talið hugmyndina freistandi, en samt ótæka vegna
ritunartíma Egils sögu og fleiri atriða.6
Árið 1909 gaf belgískur prófessor, Bley, út rit er hann nefndi
Eigla-Studien7. Hann þekkti ekki ritgerð Björns, en talsverðum
hluta bókar hans er varið til að leiða rök að því, að Snorri sé höf-
undur Eglu. Þetta rit er heldur grátt leikið í ritgerð Wieselgrens,
sem síðar verður að vikið, og Sigurður Nordal gerir einnig
heldur lítið úr því í Egluformála sínum. Enda er það mála sannast,
að rit Bleys er á margan hátt af vanefnum gert, og má nú kallast
úrelt með öllu. í rannsóknarsögu Eglu á það þó allmerkan sess vegna
viðhorfa höfundar til upphafs sögunnar. Hann hafnar algerlega
hinu sagnfræðilega viðhorfi til íslendingasagna, sem hann nefnir
svo og kallar Finn Jónsson og Maurer helztu fulltrúa þess, en telur
þær skáldsögur, þar sem raunar sé að nokkru leyti stuðzt við munn-
mælasagnir, en þær að öllu leyti sveigðar undir kröfur listarinnar.
Meginmarkmið sögunnar telur hann að vegsama forfeður Sturl-
unga og virðist Snorri líklegasti höfundur úr þeirri ætt. Hann telur
tímasetningu Finns, um eða skömmu fyrir 1200, alranga, Snorri
hafi samið Eglu á síðustu æviárum sínum, en látizt frá henni ófull-
gerðri, og hafi skrifari hans ritað síðasta hluta sögunnar, en farið
herfilega að ráði sínu í ýmsum greinum. Bley ber stíl og frásagnar-
aðferð saman við rit Snorra, en höfuðröksemd hans er í því fólgin
að bera æviferil og sálarlíf Snorra saman við Eglu, og finnur hann
þar hvarvetna samsvaranir. Röksemdafærsla Bleys er langtum of
huglæg og óvísindaleg til að mark verði á henni tekið, og er hann
að mestu úr sögunni.
Eftir ritgerðir þeirra Björns M. Ólsens og Bleys var hugmyndin
um höfundarrétt Snorra á Eglu ekki tekin til gagngerðrar athugun-
ar fyrr en eftir nærri tvo áratugi, en á þessum tíma breiddist hún
mjög út. Meðal þeirra sem aðhylltust hana, má nefna Andreas
Heusler og Frederik Paasche. Aðrir töldu þetta athyglisvert, en voru