Skírnir - 01.01.1968, Síða 58
56
VÉSTEINN ÓLASON
SKÍRNIR
fram yfir, sýnir þegar nokkuð, hvert hugur hans stendur. Ákaflega
freistandi er að setja þessa ýktu sagnageymd sem fram kemur í Eglu,
í samband við þróun höfðingjavalds á 12. og 13. öld, aukin völd
og aukinn metnað einstakra ætta, svo sem Sturlunga og Oddaverja.
Það er fjarri mér að halda, að megintilgangur höfundar Egils sögu
með frásögnum af landnámum hafi verið pólitísks eðlis. En hitt
er jafnfjarri mér að halda að vísindalegur strangleiki Snorra hafi
verið slíkur, að honum hafi ekki verið trúandi til að vilja auka veg
ákveðinna ætta með ýkjum eða með því að aðhyllast frásagnir, sem
hann mátti vita að væru ýktar, ef það gat orðið til að auka veg
hans sjálfs. Það var auðveldara fyrir Snorra að vera hlutlaus þegar
hann fjallaði um deilur Noregskonunga en um sína eigin frændur.
Og fyrst hann skirrðist ekki við að nota börn sín til að auka völd
sín og áhrif, hefur hann áreiðanlega ekki verið feiminn við að beita
ritum sínum í sama tilgangi.
Hið mikla rúm sem varið er til að skýra frá landnámi Ketils hængs
er vandskýrt með öðru en sérstökum tengslum við Oddaverja. En
þar fellur æviferill Snorra vel við.
Þriðja sagnfræðilega röksemdin er landa- og staðaþekking höf-
undar Eglu. Höfundurinn er þaulkunnugur í Borgarfirði, og hlýtur
nærri því einhvern tíma að hafa verið heimamaður á Borg, að dómi
þeirra sem þetta hafa athugað. Hann þekkir einnig vel til í Rang-
árþingi og staðþekking hans í Noregi er furðugóð, svo að fá íslenzk
rit frá þessum tíma jafnast þar við nema Heimskringla. Mér virðist
fráleitt að telja að staðfræði geti varðveitzt óbrengluð í munnmæl-
um svo lengi sem þeir Finnur Jónsson og Wieselgren gera ráð fyrir.
Undarlegt er það, að Björn M. Olsen telur góða staðþekkingu í
Noregi meðal röksemda fyrir því að Snorri sé höfundur, en álítur
þó að sagan sé rituð einhvern tíma á árunum 1202-1206, þ. e. a. s.
meðan Snorri var á Borg. Ef sagan er ekki talin rituð fyrr en eftir
fyrri utanför Snorra (1218-20) eins og Sigurður Nordal gerir,
er þetta fullgild röksemd. Aðrar sagnfræðilegar röksemdir Björns
eru lítils virði, en þær sem nú hafa verið taldar, þykja mér sýna
það, í fyrsta lagi að Snorri geti verið höfundur og í öðru lagi að
hann sé allra nafnkunnra manna líklegastur til að vera höfundur.
En auðvitað er hægt að hugsa sér að höfundurinn sé einhver lítt
eða ekki kunnur frændi hans sem uppfylli öll sömu skilyrði og hann.