Skírnir - 01.01.1968, Page 70
HERMANNPÁLSSON
Átrúnaður Hraínkels Freysgoða
ÞÓtt flestir fræðimenn muni nú vera á einu máli um það, að Hrafn-
kels saga sé lélegt heimildarrit um atburði á tíundu öld, þá eimir
enn mikið eftir af þeirri afstöðu, að sjálfsagt sé að beita sögunni í
því skyni að skýra fornan átrúnað og siðræn viðhorf í heiðni. Sú
hugmynd er enn furðu lífseig, að sögurnar séu frumstæðar bók-
menntir, sem sprottnar séu úr algerlega innlendum (og þegar lengra
kemur aftur: germönskum og skandinavískum) jarðvegi. Andleg
viðhorf í þeim eru talin arfur aftan úr grárri forneskju, þótt atburð-
ir og söguhetjur séu hugarburður höfundanna sjálfra. Að sjálfsögðu
stafar þessi misskilningur á eðli sagnanna að nokkru leyti af því,
hve illa mönnum hefur gengið að átta sig á eðli íslenzka þj óðfélags-
ins á tólftu og þrettándu öld, en stundum er hægt að rekj a villuna til
lélegra vinnubragða við textaskýringar. Menn hafa ekki hirt um
að gefa málfari sagnanna nægilega góðan gaum í einstökum atrið-
um.
Hrafnkels saga er að því leyti auðveld viðfangs, að hún beitir
kristnum hugmyndum á samfelldan og rökfastan hátt. Hvatir manna
birtast svo ljóslega, að við þurfum sjaldan að vera í vafa um það
hvað vakir fyrir höfundi. Um hina þrjá þætti í fari manna: tilfýsi,
hugrenningar og gerðir, er fjallað af stökustu varfærni og skilningi.
Því er það næsta auðvelt að merkja einstök verk og orð í samræmi
við kristnar siðaskoðanir á miðöldum. 011 sagan ber lærdómi og
þekkingu höfundar glögglega vitni.1
Lærdómur í Hrafnkels sögu er meðal annars fólginn í því, að í
henni koma fram bergmál frá heilagri ritningu. Um ýmsa slíka staði
hef ég fjallað á öðrum vettvangi, og hér verður einum aukið við.