Skírnir - 01.01.1968, Page 193
GUÐBERGUR BERGSSON:
ÁSTIR SAMLYNDRA HJÓNA
Tólf tengd atriði
Helgafell, Reykjavík 1967
ÁsnR samlyndra hjóna - tólf tengd atriði. Slíkt er heiti þessarar bókar. Og
þá verður lesanda fyrst aS spyrja: hver eru þessi samlyndu hjón, og hvaS
tengir atriðin tólf? Einfaldasta svar er, að samlyndu hjónin séu íslendingar
og vamarliðið, enda er þeim skilningi gefið undir fótinn mjög víða í bókinni,
t. d. í síðasta tengikafla hennar:
Og í dag eiga samlyndu hjónin silfurbrúSkaup hugsaði hann. Tuttugu
og fimm ár, sagði hann. (Bls. 247).
Eitt af því sem tengir hin ólíku atriði bókarinnar saman er einmitt varn-
arliðið, en í allflestum þeirra koma við sögu skipti þess við þjóðina. Annars
era helztu tengiliðir atriðanna feitletraðir kaflar, þar sem tveir menn ræðast
við, eða réttara sagt aðeins einn maður, sem talar við sjálfan sig, klofinn í
Hermann og Svan:
Hann lá hjá katlinum og horfði í spegilgljáandi kúpuna. HöfuS hans
valt til hliðar. Mynd hans teygðist unz andlitið slitnaði í tvennt. Um
það er ekki að ræða, hugsaði hann, öðrum megin andlit Svans, hinum
megin á kúpunni er andlit Hermanns. (Bls. 235).
Hermann - Svanur segir sögur; þær sögur eru hin tólf atriði bókarinnar.
Má því gera ráð fyrir, að viðhorf Hermanns speglist í sögunum. í lokakafla
bókarinnar er Hermanni lýst, þar sem hann liggur í fleti sínu í kjallaraher-
bergi, hitar sér te og hugsar. Hermann hefur afneitað öllum lífsþægindum;
eina eign hans er hraðsuðuketill. Hann er velmegunarandstæðingur:
. . . nei, þeir reka mig aldrei í velmegunina hvorki í starfi né huga ég
þrauka þangað til það kemur komist ég á föst laun er djöfullinn laus
þegar það kemur verður verðmæti og staða huldufólkssaga . . . (Bls.
250).
Ekki er nánar útskýrt, hvað það er sem Hermann bíður eftir, hitt er nokkuð
Ijóst, hvert eðli þess er - það hlýtur að vera einhvers konar antitesa þess efn-
ishyggjuheims, sem Hermann fyrirlítur. Hann afneitar heiminum eins og hann
er:
. . .ætti ég að velja milli mannanna og bóka mundi ég velja bækurnar
ætti ég að velja milli guðs og málverks af guði mundi ég velja mál-
verkið . . . (Bls. 251).
En hvernig er þá þessi heimur, sem Hermann flýr? Myndum af ýmsum
hliðum hans er brugðið upp í hinum tólf atriðum bókarinnar. Með margvís-
legum aðferðum og frá öllum sjónarhornum skyggnumst við inn í heim sam-
lyndu hjónanna.