Skírnir - 01.01.1968, Qupperneq 196
194
RITDÓMAR
SKÍRNIR
og meira að hlut; honum hverfa smám saman öll mannleg viðbrögð, síðast er
aðeins áfergjan eftir, annars er maðurinn hlutur. Það er þessi breyting, sem
heldur hug unga mannsins föngnum. Þegar brjálaði maðurinn loksins deyr,
er hann meðhöndlaður eins og hver annar hlutur, honum er pakkað inn og
sett á hann merkispjald. Og þegar öllu er lokið, finnur ungi maðurinn til ein-
hvers óskiljanlegs léttis. Hann hefur orðið fyrir andlegri hreinsun:
Þú flaugst léttilega áfram í þunnu vetrarloftinu. Þér fannst þú svífa,
fugl á nýfengnum vængjum í reynsluflugi. Þér hefur aldrei tekizt að
skilgreina gleðina, sem greip þig. (Bls. 196).
Þessi ungi maður er ein af örfáum persónum bókarinnar, sem lesandinn fær
samúð með. Annars eru flestar persónurnar næstum fullkomlega andstyggi-
legar, birta lesandanum með einhverju móti ýmsar hliðar mannlegrar örbirgð-
ar, sálardauða, illsku. Siðleysi í einhverri mynd gengur eins og rauður þráður
gegnum bókina, birtist oft í samskiptum þjóðar og varnarliðs. Algengt tema er
rótleysi þjóðlífsins, einhver festa hefur glatazt: þetta er t. d. viðfangsefni
þriðja atriðis, Mynd mannsins, þar sem maðurinn týnir sjálfum sér og eyðir
allri ævinni í fánýta leit að glötuðum helming, þar sem blandast saman naz-
istískar þjóðernispersónur og hugleiðingar um uppruna Islendinga í Pöpum.
Allar sýna sögurnar þjóðlíf í upplausn, séð frá ýmsum hliðum, og loks op-
inberast innihaldsleysi þjóðernisáróðurs og þjóðlegra stofnana í síðasta kafl-
anum, Þjóðhátíð, þar sem ferð fjölskyldu Svans á þjóðhátíð í Reykjavík
verður grátbrosleg píslarganga gegnum pylsur, blöðrur, kúrekahatta, grímur og
endalausa rigningu, þar sem fánýti og meiningarleysi þjóðhátíðarinnar opin-
berast í öllum sínum ömurleik.
Til hvers er að skrifa svona sögur um Ijótt og andstyggilegt fólk? Um
það segir Hermann-Svanur í einum tengikaflanna:
En þú andvarpar feginn því að geta sýnt hvernig allir eru skepnur, hugs-
aði hann.
Já, þannig finnur maður sitt litla traust. Það er mitt varnarlið, sagði
hann. Mín kennd. (Bls. 196).
I rangsnúnum heimi er helzta vörnin að sýna ljótleika hans svo berlega, að
lesandinn hrökkvi við og þekki kannski hluta af sjálfum sér í þeirri lýsingu.
Það hefur verið kvartað undan því, að Guðbergur Bergsson sé klúr og klám-
fenginn höfundur. Ekki dettur mér í hug að bera á móti því að hann sé klúr;
hitt er svo annað mál, að klúryrðin sem hann notar eru nauðsynlegir þættir
heildarmyndar. Það er því meiningarlaust að ráðast á þau út af fyrir sig, slit-
in úr samhengi. Slík tugga verður aldrei rökstudd sönnun þess, að Astir sam-
lyndra hjóna sé vond bók. Þeir sem vilja taka sér fyrir hendur að sanna það,
verða að fara aðrar leiðir. En sínum augum lítur hver á silfrið. Persónulega
þótti mér það klúrasta í bókinni ekki vera neitt af þeim kynfæra- og þarfa-
gangaorðum, sem svo mjög meiða fólk, heldur lýsingin á borðhaldi biskups
og presta í áttunda atriði. Þann kafla ráðlegg ég engum að lesa á undan máltíð.
Sverrir Hólmarsson