Tímarit Máls og menningar - 01.11.2012, Blaðsíða 94
94 TMM 2012 · 4
Ólafur Páll Jónsson
Einn í hári
I
Kona nokkur var gift karli, vísast hinum mætasta manni, en á honum þó sú mis-
smíði af skaparans hálfu að typpið var bara tveir þumlungar hið mesta. Af þessum
sökum hafði konan litla unun af samförum þeirra hjóna. Ekki var við marga að
mæðast yfir þessu í sveitinni og því bar hún vandræði sín upp við sóknarprestinn
með svofelldum orðum: „Einn í hári og annar inn, og hvað er þá fyrir dráttinn, séra
minn?“
Þessi saga sem afi minn sagði mér fyrir löngu síðan rifjaðist upp fyrir mér um
daginn þegar ég greip ofan í opinbera umræðu um rakstur á kynfærahárum. Mér
fannst þessi saga gera umræðuefnið, sem annars kom mér frekar á óvart, tiltölulega
lógískt. Væri maður karl með pínulítið typpi, þá kysi maður vísast hárleysi á báða
bóga svo eitthvað yrði eftir fyrir dráttinn þegar þannig stæði á. Og vissulega gæti
kona, sem ætti sér snubbóttan rekkjunaut, hugsað sem svo að best væri að raka sig
neðantil svo unaður samfaranna tapaðist ekki í hárbrúskinum. Það vakti hins vegar
undrun mína að ég gat ekki fundið samsvarandi umfjöllun um að íslenskir karl-
menn væru almennt svo snubbóttir að neðan að konur þyrftu að liðsinna þeim við
kynlífið með því að raka sig. Og það var heldur ekki viðlíka umfjöllun um að snubb-
óttir karlar ættu að raka sín kynfærahár svo þeir mættu gagnast rekkjunautum
sínum.
En svo var annað sem olli mér heilabrotum. Þótt rakstur á kynfærahárum gæti
þannig að sönnu verið lógísk iðja, þá velti ég því fyrir mér hvers vegna um þetta væri
rætt á opinberum vettvangi. Standi þannig á hjá karli að hann geti ekki gagnast
konu, þá virðist mér það þesskonar vandamál sem hann ræðir einslega við einhvern
sem hugsanlega getur liðsinnt honum, og þá ýmist fundið líkamlega bót á þessum
annmarka eða stappað í hann andlegu stáli svo sálarlífið verði ekki jafn endasleppt
og kynlífið. Og kona sem á sér snubbóttan rekkjunaut ber vandræði sín ekki á torg
heldur leitar ráða, og þá jafnvel hjá sóknarprestinum ef ekki er um aðra kosti að
ræða. Hvernig má þá vera að um rakstur á kynfærum sé rætt og fjölyrt á opinberum
vettvangi? Og hvers vegna eru svo margir karlar sem raun ber vitni á þeirri skoðun
að konur eigi raka á sér kynfærin? Varla eru þeir allir hræddir um að ná ekki í gegn
ef á reynir.
Eftir því sem ég velti þessu meira fyrir mér óx undrun mín yfir umræðunni frekar
en að hún minnkaði. Ekki hefur hvarflað að mér að hafa skoðun á því hvað konur
geyma í náttborðsskúffunni sinni. Það er bara þeirra einkamál. Og enn síður hef ég
skoðun á því hvað þær geyma í nærbuxunum. Það kemur mér bara alls ekki við. Á
meðan það sem þannig er haft utan seilingar er ekki hættulegt öðrum – er t.d.
hvorki eitur né sprengiefni – þá varðar bara ekki nokkurn mann um hvað það er eða
hvernig það er eða hvort það er yfirleitt á einn veg frekar annan. Það sem er gyrt