Hugur - 01.01.2015, Side 35
Hugtökin búa í hjarta okkar 35
hvetjandi, þannig að þarna er sem sé ákveðin togstreita á milli skáldlegrar hugs-
unar og heimspekilegrar. Reyndar finnst mér oft undarlegt að íslensk nútíma-
skáld skuli ekki vera heimspekilegri en þau eru.
Ef við víkjum að þinni eigin heimspeki þá hefur þú verið gagnrýndur fyrir heimspeki-
lega aðferðafræði þína, sem gjarnan lýsir sér í því að þú greinir hlutina í tvennt eða
þrennt eða fernt, oft í þrennt. Gagnrýnin hefur til dæmis komið upp í sambandi við
umfjöllun þína um hamingju þar sem þú gerir grein fyrir ferns konar hugmyndum eða
sýn á hamingjuna. Eyjólfur Kjalar Emilsson gagnrýndi þig fyrir það að þessi fjórskipt-
ing á hamingjuhugtakinu styddist ekki við neina sálarfræði og það væri kannski erfitt
að sjá hver rökin fyrir henni væru. Þú hefur fengið gagnrýni í svipuðum dúr varðandi
aðrar greiningar sem þú hefur sett fram. Hvað viltu segja um slíka gagnrýni?
Það er mjög löng hefð fyrir því að beita þrískiptingum í heimspeki og sá heim-
spekingur sem hefur gert þetta með áhrifamiklum hætti og mjög margir hafa tekið
sér til fyrirmyndar er Aristóteles. Kosturinn við þrískiptinguna er sá að hún gefur
tiltölulega einfalda yfirsýn yfir efnið þannig að það er viðráðanlegt fyrir hugsunina
að takast á við það. Mér hefur þótt það afskaplega heppileg greiningaraðferð að
styðjast við þrískiptingar og geri það óspart í síðustu bókinni minni, eiginlega
alveg með skipulegum hætti. Hins vegar eru annars konar skiptingar sem heim-
spekingar nota, um leið og þú gerir greinarmun þá gerir þú skiptingu, þannig að
heimspekingar vinna þá gjarnan með einhvers konar tvískiptingar, þrískiptingar,
fjórskiptingar og stundum jafnvel ennþá flóknari skiptingar, greiningar sem eru
mögulegar. Í analýtískri heimspeki gerist það stundum að maður missir einfald-
lega þráðinn yfir fjölda greininga sem hinir fræðilegu skólaspekingar bjóða okkur
upp á. Það má vera að ég sé sá af kollegum mínum sem nota þetta hvað mest, s.s.
þrískiptingar, en í mörgum tilvikum geri ég það ekki, hugsun mín er ekki endilega
bundin því að hugsa allt í ljósi þrenningarinnar, hinnar heilögu þrenningar, ef svo
má segja.
Mig minnir að ég hafi einhvern tímann heyrt þig segja að þér fyndist nú bara veruleik-
inn oft greina sig í þrennt með þessum hætti, en þú hefur kannski verið að gantast þegar
þú sagðir þetta?
Já, í því heimspekikerfi sem mér finnst vera öflugast, sem er kerfi Hegels, er þrí-
skiptingin lögð til grundvallar og kosturinn við það kerfi er að það gefur í senn
færi á mikilli yfirsýn og einföldun. Ég geri grein fyrir þessu í Hugsun og veruleika,
þar sem ég er að lýsa kerfi Hegels. Þar er grunnurinn fólginn í hugmyndinni eða
ídeunni og síðan er það ídean sem tjáir sig í náttúrunni, birtist í hinum efnislega
veruleika í öllum sínum fjölbreytileika. Það er svo í náttúrunni sem andinn tjáir
sig eða kemur fram og síðan er það þá mannsandinn sem safnar merkingunni
saman, merkingu náttúrunnar og merkingu veruleikans og skapar hinn andlega
heim sem er okkar veruleiki. Þetta er grunnskipting sem ég myndi telja að við
ættum flest að vera sammála um hvernig svo sem við hugsum nánar um hvern
einstakan þátt fyrir sig. En þarna erum við að tala um heimspekikerfi af ákveðinni
tegund. Langoftast þegar maður er að vinna í heimspeki er maður ekki að vinna
Hugur 2015-5.indd 35 5/10/2016 6:45:03 AM