Hugur - 01.01.2015, Blaðsíða 54
54 Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson
það morgunljóst að hin hreina meðvitund getur ekki verið ólíkömnuð samkvæmt
Husserl.16
Fyrirbærafræðileg meginstef
Þegar ég hef framkvæmt hina fyrirbærafræðilegu frestun þarf ég að reyna að gera
mér í hugarlund hvernig það er í raun og veru sem umhverfi mitt birtist mér áður
en ég gef mér verufræðilega tilvist þess, þ.e. hvernig er það sem hluturinn birtist
mér sem hlutur í umhverfi mínu?17
Þegar við hefjumst handa við rannsóknir okkar á hlutveruleikanum innan
hinnar fyrirbærafræðilegu frestunar koma tvö atriði í ljós.
Ætlandi
Hið fyrsta er að meðvitundin beinist alltaf að einhverju. Hún hefur Intentional-
ität, sem hefur verið þýtt sem ætlandi á íslensku. Meðvitundin er sem sagt alltaf
meðvitund um eitthvað, eða með öðrum orðum, meðvitundin er alltaf ætlandi og
samsvarandi allri ætlan er það sem er ætlað.
Husserl bendir á að með rannsókn sinni á cogito-inu hafi Descartes snert á
þessum eiginleika meðvitundarinnar en ekki þróað hana áfram. Því hvert cogito er
ekki aðeins til, heldur hefur það cogitatio, það hefur eitthvað fyrir hugskotssjónum
sínum (þ. etwas bewussthaben), t.d. í upplifun, hugsun, með því að finna eða vilja.18
Og hverju cogitatio fylgir nauðsynlega cogitatum, það sem er upplifað, hugsað,
viljað o.s.frv. Og hverri þessari aðgerð fylgir síðan ákveðinn dómur, ákveðið stig
eða tegund vissu – við erum handviss, við ályktum, okkur þykir líklegt eða við
efumst o.s.frv.19
Hér vil ég skjóta inn örlitlum punkti um málnotkun. Þegar maður gefur ein-
hverju gaum í umhverfi sínu, þá tölum við gjarnan um að maður beini sjónum
sínum að því. Hér er hætt við að við föllum í gryfju tungumálsins. Sjónskynið
hefur hér ákveðinn forgang í skilningi okkar á því hvernig við beinum okkur
meðvitað að umhverfi okkar. Það er hentugt að segja að maður beini sjónum sín-
um að einhverju, enda er það oft meint bókstaflega. En í hinni fyrirbærafræðilegu
rannsókn þarf það ekki að vera meint í bókstaflegum skilningi, þó svo að slíkt gæti
verið raunin. Það sem átt er við er að ætlandi mín beinist að hinum ætlaða hlut.
Ætlandi mín getur beinst að hlutnum á margvíslegan hátt. Ég get ekki aðeins
horft á hann, ég get hlustað (og þá jafnvel með lokuð augun) og ég get snert hann.
En ég gæti líka verið að ímynda mér hann eða minnast hans. Ég gæti verið að
fella dóm um hann.
16 Sjá Behnke, (án ártals) og Zahavi, 1994.
17 Í þessari umfjöllun minni mun ég aðeins horfa á eitt afmarkað svið þess hvernig hlutveruleikinn
birtist okkur sem hlutveruleiki. Annað svið sem spilar gífurlega stórt hlutverk í ritum Husserls,
sérstaklega á síðari hluta ferilsins, en ég get ekki snert á núna, hefur að gera með þátt annarra í
skilningi okkar á umhverfi okkar, þ.e.a.s. mikilvægi samveruleikans (e. intersubjectivity) í heims-
mynd okkar. Sjá t.a.m. fimmtu hugleiðingu Kartesískra hugleiðinga og hluta III A í Krisis.
18 Husserl, 1970: 82.
19 Sama: 82–83.
Hugur 2015-5.indd 54 5/10/2016 6:45:08 AM