Hugur - 01.01.2016, Page 8
Hugur | 28. ár, 2016–17 | s. 8–16
Athygli er hugrænn einhljómur
Björn Rúnar Egilsson ræðir við Christopher Mole
Þrátt fyrir að margir þeirra sem fást við rannsóknir og fylgjast með nýjustu vís-
indakenningum á sviði sálfræði og taugalífeðlisfræði skeyti lítið um frumspeki, er
Christopher Mole ekki einn þeirra. Mole lauk grunnnámi í heimspeki og sálfræði við
Oxford-háskóla árið 2000 og doktorsnámi í heimspeki við Princeton í Bandaríkjunum
árið 2005. Frá útskrift hefur hann bæði starfað við Washington University í St. Louis
og University College Dublin en árið 2009 fékk hann stöðu hjá University of British
Columbia þar sem hann starfar enn. Áhugasvið hans liggur fyrst og fremst í heimspeki-
kenningum í sálfræði, hugspeki og fagurfræði eins og fjölmargar greinar og bókakaflar
vitna um, en þó hefur hann einnig fengist við vísindaheimspeki, málspeki og rökfræði.
Árið 2011 gaf hann út bókina Attention is Cognitive Unison og liggur innihald
hennar viðtalinu hér að neðan til grundvallar. Bókin hefst á sögulegu yfirliti kenninga
um athygli allt frá því að sálfræði var að ryðja sér til rúms sem sjálfstæð fræðigrein
seint á 19. öld til dagsins í dag, en Mole segir söguna skipta máli vegna þess að hún
sýni okkur að frumspekileg málefni séu samofin grundvallarályktunum okkar um
hvernig rannsaka og útskýra megi hugræn fyrirbæri. Viðfangsefni bókarinnar er því
á mótum taugalífeðlisfræði, sálfræði og heimspeki – fræðigreina sem mættu ræða oftar
saman. Mole setur einnig fram eigin kenningu um athygli sem hugrænan einhljóm og
fer ofan í kjölinn á frumspekilegum undirstöðum hennar sem hann segir núverandi
rannsóknaraðferðir í tilraunasálfræði ekki geta litið fram hjá – áhugaverð fullyrðing
sem heyrist sjaldan þegar fjallað er um rannsóknarniðurstöður á sviði taugalífeðlisfræði
eða sálfræði. Mýmargar kenningar um athygli hafa verið þróaðar og settar fram á
ofangreindu tímabili og má þar helst nefna kenningar Williams James annars vegar og
F. H. Bradley hins vegar í kringum þar síðustu aldamót, en hvor um sig nálgaðist við-
fangsefnið á ólíkan hátt. James hélt því fram að hægt væri að finna eitthvert ákveðið
ferli eða mengi ferla í heilanum sem samsvaraði athygli, t.a.m. stillingu skynfæra í
samræmi við undirstöður ímyndunaraflsins. En Bradley var ósáttur við þá skýringu.
Hann taldi að slík ferli væru svo mörg og misjöfn að samsvörun þeirra við athygli væri
merkingarlaus. Lykilinn að því að skilja hana væri frekar að finna í samhengi eða
hætti þeirra tilvika sem fælu athygli í sér. Þrátt fyrir að báðir hafi verið áhrifamiklir,
segir Mole að hugmyndir þeirra dugi á endanum ekki til og að í deilu þeirra James og
Hugur 2017-6.indd 8 8/8/2017 5:53:11 PM