Hugur - 01.01.2016, Síða 31
Heildarsýn 31
Segjum að við séum spurð „Hvað er þetta?“ eða „Hvað sérðu hér?“ og að við
svörum að þetta sé teikning af kanínu. Hugsum okkur ennfremur að skyndilega
verði okkur ljóst að teikningin líkist önd. Myndin hefur ekkert breyst en við sjá-
um hana samt á allt annan hátt en áður. Eitthvað hlýtur að hafa breyst í okkur
sem gerir að verkum að við sjáum teikninguna öðruvísi en áður. Wittgenstein
kennir reynslu af þessu tagi við það að „taka eftir svip“ eða „taka eftir ásýnd“ (e.
noticing an aspect).3 Hann segir að þegar við verðum fyrir reynslu af þessu tagi
virðist það vera „að hálfu sjónræn reynsla og að hálfu hugsun“.4 Hún líkist að
hluta sjón og að hluta hugsun án þess þó að vera annað hvort – hún er einhvers
konar blanda (e. amalgam) af hvoru tveggja. Að taka eftir svip líkist sjón meðal
annars að því leyti að það er sjálfsprottin, bein og milliliðalaus reynsla. Slík reynsla
byggist ekki á greiningu, ályktun, yfirvegun eða öðrum álíka röklegum aðgerðum
– ekkert fremur en við þurfum að beita greiningu, ályktun og yfirvegun til að sjá
að tiltekin ljósmynd af andliti eldri konu sé af ömmu okkar. Við sjáum svipinn
í einni svipan. Annað sem einkennir það að „taka eftir svip“ er að það er reynsla
sem varir í afmarkaðan tíma. Að sjá önd í teikningunni, eða svip látins ættingja í
andliti barns, getur varað í skamma stund og horfið svo. Það er með öðrum orðum
frábrugðið því að hafa skoðun á einhverju eða vita eitthvað, því hægt er að vita
að Borgarnes stendur við Borgarfjörð, svo dæmi sé nefnt, án þess að sú vitneskja
þurfi sífellt að standa manni fyrir hugskotssjónum.5
En hvað er þá líkt með því að „taka eftir svip“ og að hugsa? Wittgenstein segir
að þegar við horfum á hlut sé ekki nauðsynlegt að við séum að hugsa um hann.
Þegar maður tekur á hinn bóginn eftir svip og hrópar upp yfir sig „Það er önd!“
„þá er maður líka að hugsa um hvað hann sér“.6 Við getum sagt að það að taka
eftir svip veki okkur, geri okkur íhugul, á hátt sem ekki þarf að eiga við um sjón-
ræna reynslu. Wittgenstein segir að tjáning slíkrar athygli sé „viðurkenningar-
óp“ (e. a cry of recognition).7 Að taka eftir svip er eins og þegar eitthvað kemur
manni að óvörum, eitthvað rennur upp fyrir manni sem fær hann til að staldra
við. Annað sem má nefna er að ólíkt sjónrænni reynslu er það að taka eftir svip að
einhverju leyti komið undir vilja okkar. Það er ekkert vit í að segja einhverjum að
sjá hring sem ferhyrning. Á hinn bóginn væri fullt vit í að segja við einhvern sem
virðir fyrir sér andar-kanínuna: „Reyndu nú að sjá þetta fyrir þér sem önd“ eða
„Gerðu þér í hugarlund að þetta sé önd“.8 Það væri líka hægt að færa fram ýmis
rök í þeim tilgangi að fá viðmælanda sinn til að sjá hlutinn í öðru ljósi. Það væri
hægt að benda honum á að sjá megi vissa drætti sem gogg en ekki eyru, og svo
framvegis. Slík rök gætu þó ekki knúið fólk til að sjá hlutinn á einhvern ákveðinn
veg með sambærilegum hætti og gildar röksemdafærslur eiga að geta knúið það
til einnar réttrar niðurstöðu. Sumir gætu verið haldnir „svip-blindu“ (e. aspect-
3 Wittgenstein 1974: 193.
4 Wittgenstein 1974: 197.
5 Verbin 2000: 16.
6 Wittgenstein 1974: 197.
7 Wittgenstein 1974: 198.
8 Wittgenstein 1974: 213.
Hugur 2017-6.indd 31 8/8/2017 5:53:17 PM