Hugur - 01.01.2016, Page 33
Heildarsýn 33
og tjáningu annars fólks sem gerir okkur kleift að sjá að það þjáist, er glatt, og svo
framvegis.15 Þetta er það sem til dæmis er átt við þegar sagt er að „gleðin skíni úr
andliti“ manns. Við lesum gleði hans af andlitinu beint og milliliðalaust, án þess
að við þurfum að geta okkur til um hvað sé að gerast innra með honum, eða setja
fram og sannreyna tilgátur þar að lútandi. Frá þessu sjónarmiði er sálin ekki dulið
fyrirbæri sem leynist innra með manneskjunni og á sér ef til vill aðsetur í ein-
hverju tilteknu líffæri líkamans.16 Þvert á móti blasir sálin við þeim sem hafa augu
til að sjá. Eða eins og Cavell orðar það, tengsl manns við sál annars eru eins bein
og milliliðalaus og við viðföng augans.17 Þegar sálin er ósýnileg er það ekki vegna
þess að líkaminn feli sálina heldur þvert á móti vegna þess að honum er eiginlegt
að birta hana. Sálin getur verið okkur ósýnileg á sama hátt og eitthvað sem er
beint fyrir framan nefið á okkur er okkur ósýnilegt. Ástæður fyrir sálarblindu
minni er því ekki að finna í náunganum heldur í afstöðu minni til náungans, þótt
„ég forðist málið með því að varpa myrkrinu yfir á hinn“ og reyni þannig að koma
mér undan frumábyrgð minni gagnvart öðrum – að viðurkenna mennsku þeirra.18
Samkvæmt þessu er sitthvað að sjá og að sjá; það er röklegur munur á sjónrænni
skynjun sem slíkri annars vegar og sjónrænni reynslu sem felur í sér vissa afstöðu
til fyrirbærisins hins vegar. Afstaða okkar til fyrirbærisins, hvernig við tengjumst
því, hefur áhrif á hvað við sjáum. „Svipblinda“ – vangeta okkar til að sjá teikn-
ingu sem mynd af önd eða einstakling sem mannlega sál – sprettur af því að við
festum okkur í tiltekinni afstöðu til fyrirbærisins og gerum okkur um leið blind á
aðra afstöðu til þess. Er eitthvað rétt eða rangt við það hvernig við „tengjum“ við
fyrirbærið? Hér brestur að einhverju leyti samlíkingin milli andar-kanínu-teikn-
ingarinnar og sálarinnar. Ólíkt því að geta ekki séð og viðurkennt aðra manneskju
sem sál eða persónu, felur andarblinda ekki í sér siðferðilegan og menntunarlegan
skort.19 Það er vegna þess að andarblinda gefur ekki eins og sálarblinda til kynna
skort á vilja og ábyrgð til að taka fullan þátt í hinu mannlega lífsformi og láta sig
líf annarra varða.20 Hér erum við komin að mikilvægu atriði varðandi möguleika
okkar á að sjá fólk, náttúrufyrirbæri eða heiminn sem slíkan. Geta okkar til að
sjá hvað sem vera skal er háð tengslum okkar við það sem við sjáum, og alveg
sérstaklega háð því hvort og í hvaða skilningi við látum okkur annt um það. Þetta
er meðal annars ástæðan fyrir því að orðið athygli nær að mörgu leyti vel að fanga
þá tegund af „sjón“ sem varðar siðferðilegan skilning. Athygli er sú gjörð að beina
huganum að hinu ytra, því sem er annað en maður sjálfur – að manneskjum og
öðrum lifandi verum, að eiginleikum eins og fegurð eða gæsku, og svo framvegis.
Þótt athygli sé vissulega misjöfn að gæðum og geti á stundum verið hlutlaus og
15 Í efnisgrein 185 í Philosophical Investigations talar Wittgenstein um „náttúruleg viðbrögð“ persónu
við bendingu annars og í efnisgrein 415 segir hann, „við erum í raun að ræða um náttúrufræði
manna“ (e. the natural history of human beings).
16 René Descartes áleit, svo dæmi sé nefnt, að aðsetur sálarinnar væri í heilaköngli, sjá rit hans Les
passions de l ’âme Descartes 1679.
17 Sjá umræðu Cavells í The Claim of Reason, s. 268.
18 Cavell 1982: 269.
19 Cavell talar um svipblindu hvað varðar annað fólk bæði sem ólæsi og menntunarskort. Sjá Cavell
1982: 369.
20 Sparti 2005.
Hugur 2017-6.indd 33 8/8/2017 5:53:18 PM