Hugur - 01.01.2016, Side 100
100 Sigríður Þorgeirsdóttir
undan öllu öðru og að hún hafi verið með Guði í ráðum, við hlið hans við sköpun
heimsins.36
Þó svo að Heimspeki í texta Bóethíusar og Soffía dulspekihefðanna séu ekki ein
og sama veran skarast þær engu að síður, og einnig í verki Bóethíusar vegna þess
að það er skrifað á sögulegum tíma þar sem kristin og forngrísk minni takast á.
Menningarsagan býr yfir fjölda minna sem draga fram líkamlegar og tilfinninga-
legar hliðar Heimspeki sem hafa með visku lífsins að gera. Það er samt ekki fyrr
en á allra síðustu tímum sem túlkendur hafa farið að gefa þessum þáttum í mynd
Heimspeki nánari gaum. Slíkar nálganir ganga einmitt út frá því að greina verði
Heimspeki í ljósi kynjamismunar og líkamleika. Það hefur ekki með umsnúning á
hinu andlega og líkamlega að gera, heldur fyllri mynd af mannverunni sem heild
beggja þátta. Í bók sinni um Líkama Soffíu ræðir Annegret Stopczyk-Pfundstein
Huggun heimspekinnar og bendir einmitt á það að Heimspeki kennir Bóethíusi
að aðgreina ekki sál og líkama, og hjálpar honum við að öðlast líkamlega visku.37
Samkvæmt Stopczyk-Pfundstein kennir Heimspeki Bóethíusi hvernig hann geti
„sokkið niður í eigin líkama, til þess að tendra ‘innra ljós’ eða visku sem geti orðið
hans eigin“.38 Það er einmitt þetta atriði sem ég hef leitast við að draga skýrar
fram í túlkun minni á Heimspeki. Það er birtingarmynd líkamlegrar visku sem
getur af sér dýpri heimspekilega hugsun og dómgreind. Líkamleg heimspekileg
viska er tilfinningahlaðin. Hinn fangelsaði og dauðadæmdi Bóethíus örvæntir. Í
upphafssenu bókarinnar grætur hann.39 Hann fílósóferar í erfiðu tilfinningalegu
ástandi sem hann reynir að láta ekki yfirbuga sig. Eitt lag þessa marglaga texta
tilheyrir þeirri hefð miðaldaspeki sem hverfist einmitt um umhyggju fyrir sálinni.
Steinar Örn Atlason fjallar um það í grein sinni um Huggun heimspekinnar að
ástundun heimspeki í texta Bóethíusar sé einmitt „form sálfræðimeðferðar“ og sé
einnig dæmi um „heimspeki sem lífsmáta“.40
Öll hugsun er líkamleg vegna þess að hugurinn er í líkama. Hugsun og tilf-
inningar eru samofnar vegna þess að tilfinningar hafa vitsmunalegt inntak. Þetta
eru staðreyndir sem hafa mikið verið rannsakaðar innan hugarfræði samtímans
en þessi verufræði vitsmuna- og vitundarlífsins eru ekki til umfjöllunar hér. Í
Huggun heimspekinnar höfum við fyrir sjónum hvernig tilfinningar og kenndir
eru hluti af heimspekilegri hugleiðingu þannig að ekki fer milli mála. Það er
líkaminn sem geymir minningar alls þess sem við höfum reynt og lifað, þekk-
ingu okkar, visku og skilning á hlutunum. Skynbragð okkar á hluti og tilfinning
36 Svo virðist sem það sé venja að þýða nafn Soffíu í Orðskviðunum sem speki (með litlum staf á
íslensku,) og vísa til hennar í kvenkyni og tala um „hana“. Á ensku og þýsku er hún þýdd sem
„wisdom“ og sem „Weisheit“. Það má velta fyrir sér í ljósi Soffíufræða, sem hafa vaxið innan bibl-
íufræða á undanförnum áratugum, hvort þessar þýðingar séu í anda hvorugkynvæðingar Soffíu og
hvort ástæða væri til að tala um Soffíu fremur en speki. Hugsanlega er það í anda mótmælenda-
hefðar að vilja ekki upphefja heiðna gyðju og ala á gyðjutrú.
37 Stopczyk-Pfundstein 2003: 222.
38 Sama rit: 222.
39 Boethius 1982: 36.
40 Steinar Örn Atlason 2010: 143–144. Steinar Örn túlkar ástundun heimspekinnar sem „andlegar
æfingar“ í anda heimspeki Pierres Hadot og hugmynda Michels Foucault um umhyggju fyrir
sálinni.
Hugur 2017-6.indd 100 8/8/2017 5:53:38 PM