Hugur - 01.01.2016, Page 116
116 Sigrún Inga Hrólfsdóttir
og eindir. Þetta er ein af furðum skammtafræðinnar sem mönnum hefur enn
ekki tekist að komast til botns í. Jafnvel þó að skammtafræðin sé ein nákvæmasta
kenning sem til er.
Bohr veigraði sér ekki við að horfast í augu við hinn verufræðilega og frum-
spekilega þátt uppgötvana sinna ólíkt mörgum öðrum vísindamönnum. Sum-
ir þeirra, til að mynda bandaríski eðlisfræðingurinn Richard Feynman, hvöttu
nemendur sína og samstarfsmenn til þess að forðast það í lengstu lög að spyrja:
„Hvernig geta hlutirnir verið svona?“ Að hans mati gat enginn vitað það og því
væri best að vera ekkert að spyrja.31
Bohr áleit tungumálið sem við notum til þess að lýsa eðlisfræðilegum fyrir-
bærum vera mjög mikilvægt, í raun jafn mikilvægt og eðlisfræðin sjálf. Því hvað
er tungumálið annað en mælitæki eða skilgreiningarafl? Það má því segja að
veruleikinn hafi sprengt tungumálið í loft upp, enn eina ferðina. Bohr var heillað-
ur af þeim þversögnum sem birtust í skammtafræðinni og í einhverjum skilningi
má segja að hann hafi haft getuna til þess að sjá að það er ekki mótsögn að ljós
hagi sér bæði sem eind og sem bylgja. Hann var fær um að samþykkja þetta tví-
eðli, sem í huga margra gengur gegn rökfræðilegum lögmálum.
Sem dæmi um það hvernig tungumálið skilgreinir fyrirbæri í alheiminum, sem
þó eru handan þess og ekki á færi mennsks hugar að skynja með beinum hætti,
er munurinn á orðunum óvissa (e. uncertainty) og óákveðni (e. indeterminacy).
Óvissa, samanber óvissulögmál Heisenbergs, hefur ákveðna merkingu, en Bohr
vildi fremur tengja þetta fyrirbæri óákveðni, vegna þess að hægt er að komast
að annaðhvort hraða eða staðsetningu einda og þetta tengist líka því að mæli-
tækið eða athugandinn verður að ákveða sig hvort atriðið á að mæla. Þarna er
ákveðinn blæbrigðamunur, sem hefur þýðingu í hinni verufræðilegu nálgun. Hin
innbyggða óákveðni veruleikans hörfar undan skilgreiningu. Þetta má meðtaka
sem svo að veruleikinn sé opinn fyrir möguleikum. Eða eigum við að segja að
veruleikinn sé möguleikinn á mismunandi sjónarhornum? Eða getum við litið svo
á að rétt einsog við, mennsku sjálfsverurnar, þá séu smæstu einingar alheimsins
líka forvitnar og „upplifi“ mismunandi sjónarhorn á umhverfið?
Hugmynd Bohrs um fyllingarlögmálið (e. the law of complementarity) byggist
á því að mismunandi þættir vega hver annan upp. Eindir standa í tengslum og
veruleikinn er samþættur. Í líforðasafni Íslenskrar orðabókar er orðið complement
þýtt sem mögnuður eða hjástoð. Og vísar þannig til þess að eitt styður annað eða
magnar það. Eitt getur ekki án hins verið og x er x í krafti þess að það er ekki y.32
31 Björn Þorsteinsson 2016: 6.
32 Það er gaman að geta þess að Bohr bjó sjálfum sér til skjaldarmerki þar sem táknið fyrir yin og
yang í kínverskri heimspeki er í forgrunni ásamt latnesku áletruninni contraria sunt complementa
sem þýða mætti sem andstæður bæta hvor aðra upp.
Hugur 2017-6.indd 116 8/8/2017 5:53:43 PM