Hugur - 01.01.2016, Side 147
Frá skoðunum til trúnaðar og aftur til baka 147
að síður svo að næstum ekkert hefur verið skrifað um bayesíska þekkingarfræði á
íslensku og er ætlunin að bæta úr því hér með.1
Ég mun hefja leikinn í 2. hluta á því að skoða eitt lykilhugtak hefðbundinnar
þekkingarfræði – skoðun – og samsvarandi hugtak bayesískrar þekkingarfræði –
trúnaður.2 Í 3. hluta ræði ég svo grunnatriði bayesískrar þekkingarfræði, þar á
meðal þær kröfur sem frumsendur líkindafræðinnar eru taldar gera til þess trún-
aðar sem við leggjum á ólíkar fullyrðingar, auk þess sem ég mun gera grein fyrir
tiltekinni reglu um það hvernig skynsamir einstaklingar eigi að bregðast við þegar
nýjar upplýsingar koma til sögunnar. Í 4. hluta ræði ég svo áhrifamikil rök fyrir
því að fylgja skuli bayesískri þekkingarfræði að málum, hin svonefndu veðmálsrök.
Að því loknu reyni ég svo í 5. hluta að tengja bayesíska þekkingarfræði saman við
hefðbundna þekkingarfræði með því að skoða hvaða tengsl eru milli trúnaðar og
skoðana. Í ljós mun koma að þessi tengsl eru afar vandmeðfarin, og mun ég reyna
að bregðast stuttlega við því í 6. hluta.
2. Skoðanir og trúnaður
Hefðbundin þekkingarfræði fæst við ýmis álitamál á borð við það hvernig skuli
skilgreina þekkingu, hvort hægt sé að afla sér þekkingar á tilteknum hlutum (eins
og siðferðilegum sannindum eða hinum ytri heimi), og hvernig það skuli þá best
gert. Reyndar eru ekki allir sammála um að þekkingarfræði eigi að leggja sérs-
taka áherslu á þekkingu (e. knowledge) og færa í staðinn rök fyrir því að áhuga-
verðara sé að skoða fyrirbæri eins og skilning (e. understanding) og rökstuðning (e.
justification).3 Þó má segja að meðal þekkingarfræðinga sé víðtæk samstaða um
að þekkingarfræði fáist við skoðanir (e. beliefs). Hefðbundin þekkingarfræði fjallar
um boðandi eða normatívar spurningar sem tengjast skoðunum, svo sem hvernig
fólk á að mynda sér skoðanir, hvaða skoðanir geti talist til réttnefndrar þekkingar,
og hvort hægt sé að rökstyðja skoðanir um tiltekna hluti eður ei. Eins undarlega
og það kann að hljóma má því segja að það séu skoðanir frekar en þekking sem
eru meginviðfangsefni hefðbundinnar þekkingarfræði.
Frá sjónarhorni hefðbundinnar þekkingarfræði eru skoðanir tiltölulega einfalt
fyrirbæri.4 Með tilliti til tiltekinnar fullyrðingar er annaðhvort hægt að telja5
fullyrðinguna sanna eða ekki. Auk þess er auðvitað hægt að telja fullyrðinguna
ósanna, en það er jafngilt því að telja neitun upphaflegu fullyrðingarinnar sanna.
Það breytir því ekki að annaðhvort hefur maður tiltekna skoðun eða ekki – það
1 Mér vitanlega er eina undantekningin á þessu grein mín „Tvö viðhorf til vísindalegrar þekkingar
– eða eitt?“, Finnur Dellsén 2015.
2 Orðið „trúnaður“ er hér notað í merkingunni að leggja trúnað á eitthvað en ekki í merkingunni að
gæta trúnaðar um eitthvað. Þessu orði er ætlað að samsvara enska orðinu „credence“. Ég vil þakka
Jóni Ólafssyni fyrir að stinga upp á þessari þýðingu.
3 Sjá til dæmis Kaplan 1985 og Kvanvig 2003.
4 Vissulega er mörgum spurningum um skoðanir ósvarað – svo sem um hvert sé eðli skoðana
og hvert sé inntak eða viðfang þeirra. En þessar spurningar eiga heima í hugspeki og málspeki
fremur en í þekkingarfræði.
5 Til einföldunar í framhaldinu mun ég nota orðasambandið „að telja P sanna“ yfir það að hafa þá
skoðun að P sé sönn.
Hugur 2017-6.indd 147 8/8/2017 5:53:52 PM