Víðförli - 01.06.1950, Page 40
38
VÍÐFÖRLI
Trúin er existentiell vissa, þ. e. menn geta ekki átt hana á sama
veg og menn aðhyllast meira eða minna ópersónulega vitneskju um
allt mögulegt. Um guðsvitund, trúarvissu er því aðeins að ræða,
að maður leggi sjálfan sig undir, að hún sé lifuð, upplifuð, og síð-
an lifað á henni. Menn geta talið, að Guð sé til — eins og gömlu
Epikurearnir töldu guði til -—■ en það skipti þá engu — menn
geta aðhyllst þá skoðun, að Guð sé til og samt verið trúlausir í
kristinni merkingu, þ. e. ef ekki er um að ræða persónulega, lífs-
mótandi afstöðu til Guðs í trausti, samfélagi, hlýðni. Og á hinn
bóginn getur tilvera Guðs virzt „teoretiskt“ ósennileg, á sama veg
og t. d. útvarpið var ósennilegur möguleiki, þangað til það varð
veruleiki, en trúarleg veruleikaáhrif geta rofið múr „teoretiskra“
andmæla og gert mann vissan. Og þessi vissa hefur rök sín í
sjálfri sér. Þegar spurt er: Hvernig veiztu, að þú talar við Guð í
bæn þinni og ekki út í bláinn? þá getur trúmaðurinn engu öðru
svarað en þessu: Eg veit það af því, að ég mæti Guði, veit það af
því, að Guð hefur mætt mér, talað til mín. Þetta er ekki vitsins
niðurstaða á sama veg og röksluddar ályktanir um almenn þekk-
ingaratriði. Þar fyrir er það engin vitleysa. Það er í sama flokki
og persónulegustu viðbrögð okkar allra og þau, sem einnig rista
dýpst í lífi hvers manns, í sama flokki og afstaðan til föður og
móður, maka og barna eða til náins trúnaðarvinar. Það eru engin
vísindi, þegar hjarta tengist hjarta í persónulegum trúnaði og
hollustu, engin stærðfræði, engin rökspeki. Það, sem þá gerist,
verður ekki analyserað eða leyst upp í formúlur. Og öðrum mönn-
um verður ekki heldur gerð fyllilega grein fyrir því, nema þeir
þekki eitthvað hliðstætt úr sínu eigin lífi. Ef þú hittir mann fyrir,
sem aldrei hefur reynt ást, vináttu, kærleika, þá verðurðu að
gefast upp við að gera honum skiljanlegt, hvað í slíku felst. Og
það er ekki sacrificium intellectus, fórnfæring vitsins, heldur að-
eins sú staðreynd, að honum er lokað lífssvið, sem þú hefur reynt
og reynslan ein getur lokið upp til fulls.