Víðförli - 01.06.1950, Blaðsíða 39
TRÚ OG VÍSINDI
87
guðfræðin var rationalistisk löngum. Einmitt sú áherzla, sem lögð
var á rökhyggju og ég hef nokkuð rætt, leiddi til þess að menn
töldu trúna gjarnan þekkingu, aðeins á öðru og æðra stigi. Menn
treystu vitinu til þess að geta sannað tilveru Guðs með knýjandi
almennum rökum. Hér gerði Immanuel Kant mannkyninu einn
af sínum mörgu, stóru greiðum. Hann hefur í þekkingarfræði
sinni í eitt skipti fyrir öll bent á takmörk vitsins, þegar um er
að ræða hin hinztu rök. Hann neitaði ekki tilveru persónulegs
Guðs og dró ekki réttmæti eða sanngildi guðstrúarinnar í efa.
Guðstrúin er samofin köllun mannsins til þess að lifa sönnu lífi.
Það er innri nauðsyn hinnar siðgæðislegu ákvörðunar manns-
ins, að hún leiðir til guðstrúar. Hver maður, sem ekki hefur
upprætt úr sér vitundina um djúpstæðasta lögmál veru sinnar,
liefur vitund um Guð og hið eilífa. En það er ekki þekking og
vísindaleg þekking á Guði er ekki möguleg. Þekking takmarkast
við það, sem tilheyrir þessum heimi rúms og tíma. Þekking
á því, sem er handan rúms og tíma, er ekki möguleg. Þess
vegna er ekki hægt að sanna tilveru Guðs. Fræðilegar niður-
stöður um eðli þessa heims geta aldrei orðið annað en vísbend-
ing, aldrei sönnun. Kant sýndi fram á mörkin milli raunvísinda-
legrar og logiskrar sönnunar annars vegar og trúvissunnar hins
vegar, sem er persónulegs eðlis, hagnýt lífsvissa. Það er vert að
hafa þetta í huga í sambandi við það, sem áður var sagt um
heimsmynd nútímans. Kant verður ekki vikið úr vegi um þetta.
Og reyndar er hann í þessu í samræmi við sterkasta strenginn í
sögu kristinnar hugsunar. Þar er Ágústínus, þegar hann tilbiður
þann Guð, sem skilningarvitunum er hulinn en þeim opinber,
sem leita hans af hjarta. Þar er Bernharð af Clairvaux, sem segir,
að maðurinn þekki Guð að sama skapi sem hann elskar Guð.
Þar er Lúther, sem segir að trúnaður hjartans einn Ijúki upp fyrir
Guði. Þar er Pascal, sem segir, að lind vissunnar um Guð sé ekki
vitið tekið eitt sér, heldur hjartað. Guðsvissan lifir, á hann við,
sínu sérstaka, sérstæða lífi í djú])i véru minnar, þar sem þetta. sem
við sundurliðum sem hugsun, tilfinningu og vilja, er enn ódeild
heild. Enginn hefur þó sýnt betur fram á þetta en S. Kierkegaard.