Tímarit Máls og menningar - 01.11.1977, Blaðsíða 51
Bjarni Einarsson
Essayistinn Halldór Laxness
Þegar rætt er um skáldið og rithöfundinn Halldór Laxness er yfirleitt
átt við skáldsagnahöfundinn eins og eðlilegt er. Á því sviði eru afrek
hans mest og frægust. Á hitt er sjaldan minnst að Halldór er okkar
snjallasti og atorkusamasti ritgjörðahöfundur; telst svo til að alls hafi
sextán bækur með ritgjörðum eftir hann komið út hérlendis, og enn eitt
ritgjörðasafn er nú í prentun. En margar þessara greina höfðu upphaflega
verið prentaðar annars staðar, einkum í Tímariti Máls og menningar.
Of langt mál yrði að gjöra hér yfirlit um efni ritgjörðanna, því að
Halldór hefur að heita má ekki látið sér neitt mannlegt óviðkomandi. Á
yngri árum sínum vakti hann oft máls á því sem honum þótti fara mið-
ur í íslensku þjóðlífi og lifnaðarháttum landa sinna, og eru margar ábend-
ingar hans enn í fullu gildi, þrátt fyrir framfarir á ýmsum sviðum.
Með árunum hafa honum orðið æ hugleiknari fornbókmenntirnar og
þær mörgu gátur sem þeim eru tengdar. Verður hér á eftir vikið nokkru
nánar að þeim þætti.
Smáritgjörðasmíð er sérstök listgrein innan bókmenntanna og hefur
verið iðkuð af mörgtim rithöfundum erlendis, einkum á Bretlandi á
átjándu og nítjándu öld, en upprunnin í Frakklandi (franska heitið essai
merkir tilraun). Norðurlandamenn hafa og átt framúrskarandi essayista
allt frá Holberg, en af síðari mönnum ber einkum að nefna Danina
Georg Brandes, Jakob Paludan og Paul V. Rubow, — Norðmennina
Hans Heiberg og Hans E. Kinck, og Svíann Franz G. Bengtson, og er
þó ógetið fjölmargra ágætra essayista. Hérlendir menn hafa fáir lagt
þessa íþrótt fyrir sig, en nokkrir myndu þó teljast í fremsm röð hvar
sem væri: Guðmundur Finnbogason, Sigurður Nordal, Sverrir Kristjáns-
son og síðast en ekki síst Þórbergur Þórðarson og Halldór Laxness.
Smáritgjörðin eða essayin er tilraun til að gjöra athyglisverðu efni
nokkur skil í stuttu máli á listrænan hátt. Ritgjörðirnar geta að vísu
1 s tmm
273