Tímarit Máls og menningar - 01.11.1977, Blaðsíða 70
Jan Kott
Shakespeare á meðal vor
Annar hluti
HAMLET Á VORRI TÍÐ
I
Skrá yfir bækur og ritgerðir um Hamlet er að vöxtum helmingi meiri en
símaskrá Varsjárborgar. Ekki hafa verið rimð önnur eins kynstur um neinn
Dana af holdi og blóði sem um Hamlet prins. Konungssonur Shakespeares
er að sönnu víðkunnasti fulltrúi þjóðar sinnar. Um Hamlet hafa sprottið
upp orðaskrár og skýringarrit fleiri en tölum taki, og hann er meðal fárra
persóna í bókmenntum sem lifa óháðar texta og leiksviði. Nafn hans hefur
nokkra merkingu jafnvel í vitund þeirra sem aldrei hafa séð eða lesið
leikrit Shakespeares. Að því leyti svipar honum til Mónu Lísu, myndar
Leónardós. Jafnvel þeir sem aldrei hafa séð málverkið, vita að hún er
brosandi. Bros Mónu Lísu hefur tekið sig upp frá myndinni; og í því felst
ekki aðeins það sem Leónardó lét það túlka, heldur einnig allt sem um
það hefur verið ritað. Og mikill er sá sægur - telpur, konur, skáld, mál-
arar — sem reynt hefur að ráða í leyndardóminn á bak við þetta bros. Það
er ekki aðeins Móna Lísa sem nú brosir við oss, heldur allir sem hafa
reynt að skilja, eða stæla, þetta bros.
Sama máli gegnir um Hamlet, eða öllu heldur - Hamlet á leiksviðinu.
Vér höfum numið hann á brott úr textanum, ekki aðeins vegna þess að
Hamlet lifir „sjálfstæðu lífi“ í menningu vorri, heldur blátt áfram vegna
þess hvað leikritið er langt. Það er ekki hægt að flytja Hamlet í heild, því
flutningurinn tæki næstum sex tíma. Menn verða að velja, stytta og stýfa.
Það er ekki hægt að flytja nema einn Hamlet af þeim mörgu sem til
greina koma í þessu stórleikriti. Það verður alltaf einhver rýrari Hamlet
en Hamlet Shakespeares; en það kynni einnig að verða sá Hamlet sem
magnast af vorri samtíð. Það kynni að verða, og er mér þó næst að segja
— það hlýtur að verða svo.
292