Tímarit Máls og menningar - 01.11.1977, Blaðsíða 6
Tímarit Máls og menningar
Nú í sumar átti ég þess kost að kynnast ofurlítið starfi og skipulagi norska
útgáfufélagsins PAX sem hefur þótt fyrirmynd um lýðræðisleg vinnubrögð. Það
félag gefur út um 40 bækur á ári, fastir starfsmenn eru 20, þar af 7 í hálfu
starfi (þess má geta til gamans að Mál og menning gefur út um 20 bækur á
ári og hefur 3 fastráðna starfsmenn í vinnu). Auk þessara starfsmanna vinna
starfshópar utan forlagsins að tilteknum bókum. Æðstu völd í PAX hefur alls-
herjarfundur starfsmannanna, bæði fastráðinna og starfshópa, en kaupendur bók-
anna áttu þar enga aðild að til skamms tíma. Fyrir skömmu hafa verið boðin
út svonefnd hlutabréf sem velunnarar félagsins kaupa og fá í staðinn afslátt
af útgáfubókum. Þessir hluthafar eru einnig boðaðir á allsherjarfund. Löngu
áður en þessi nýbreytni var tekin upp þótti mönnum slíkt stjórnarform of þungt
í vöfum. Allsherjarfundum var því fækkað í einn á ári og stjórn kosin úr hópi
starfsmanna til að fara með framkvæmdavald milli funda. Staða þessara hlut-
hafa er greinilega mjög áþekk stöðu félagsmanna Gagns og gamans, og yfirleitt
er þetta fyrirkomulag allrar virðingar vert.
Ef Mál og menning tæki þessa skipulagshætti sér til fyrirmyndar mundi allt
breytast, ekki aðeins stjórnskipun heldur einnig rekstur félagsins. Mál og menn-
ing hefur aldrei leitað tii félagsmanna sinna um fjárframlög né fórnir af neinu
tagi. Ef hart hefur verið í ári hefur hins vegar verið reynt að freista þeirra, sem
og annarra, með gylliboðum um hagstæð bókakaup. Félagsgjald er ákaflega lágt
og skyldukaup engin, félagið hefur nú orðið treyst eingöngu á „frjálsan mark-
að“ með öllum þeim sveiflum tísku, duttlunga og almenns efnahags sem hon-
um fylgja. Ef skipulaginu yrði breytt í þessa veru færi fyrst að reyna á sam-
stöðu almennra félagsmanna, og það á þessum tíma lítillar félagshyggju. Áður
en í slíkt yrði ráðist þyrfti að efla, eða öllu heldur búa til, virkt félagsstarf
meðal þeirra sem hingað til hafa aðeins fengið Tímaritið sent og keypt eina
bók, tvær eða enga fyrir jólin. Ég er þeirrar skoðunar að það gæti orðið félag-
inu til styrktar að boða til opins félagsfundar a. m. k. einu sinni á ári til að
skiptast á skoðunum um útgáfustefnu félagsins. Það er þó svolítið erfitt um
vik því að félagsmenn eru dreifðir um allt land. Ein dýrmætasta arfleifð Máls
og menningar er einmitt sú víðtæka skírskotun sem það hefur náð og má með
engu móti glata. í því sambandi væri fróðlegt að forvitnast um stéttasamsetn-
ingu þess hóps sem nú hefur gengið í Gagn og gaman, hvort þeim félagsskap
hefur auðnast að ná til alþýðu manna eða hvort hann er bundinn við samþættan
hóp stúdenta og menntamanna eins og því miður virðist vera raunin með hlið-
stæð forlög annars staðar á Norðurlöndum þrátt fyrir lofsverða viðleitni.
„Mál og menning vill vera lifandi félag, sem aldrei festist í formum,“ sagði
Kristinn E. Andrésson í fyrsta hefti Tímaritsins 1940. Það er engin ástæða til
að halda í gamlar og úreltar starfsvenjur ef völ er á öðru betra, og sjálfsagt er
að gera breytingar á skipulagi Máls og menningar, en þær verður þá að gera
228