Tímarit Máls og menningar - 01.11.1977, Blaðsíða 52
Tímarit Máls og menningar
orðið langar, og eru þeim raunar engin ákveðin takmörk sett að því leyti.
Það er undir rithöfundinum komið hvort lesandanum þykir ritgjörðin
of löng.
Sigurður Nordal lýkur essay sinni, Samhengið í íslenskum bókmenntum,
með þessum orðum: Menning framtíðar vorrar verður að rísa á traustum
grundvelli fortíðar. Draumar vorir mega verða að því skapi djarfari sem
minnið er trúrra og margspakara.
Halldór Laxness hefur á síðari árum birt fjölda ritgjörða um íslenskar
fornbókmenntir, en raunar er alllangt síðan hann tók að velta fyrir sér
vandamálum á því sviði, því að eins og hann segir í langri grein frá
1945, Minnisgreinar um fornsögur, gemr íslenskur rithöfundur „ekki
lifað án þess að vera síhugsandi um hinar gömlu bækur“. Raunar hafði
hann tíu árum áður kvatt sér hljóðs út af stafsetningu á prentuðum út-
gáfum fornsagna og mælt eindregið með því að útgáfur ætlaðar alþýðu
manna væru prentaðar með nútímastafsetningu. Þetta er stutt grein og
vakti engan styr en var fyrirboði stærri atburða nokkrum árum seinna.
Arið 1941 spurðust þau válegu tíðindi að Halldór væri að búa Laxdælu
til prentunar með löggiltri stafsetningu og þótti sýnt að „heimskommún-
isminn“ stæði á bak við þetta tilræði við íslenska menningu. Þetta varð
upphaf heiftarfullra árása á Halldór í dagblöðum, og á alþingi var lagt
fram frumvarp til laga sem bannaði þvílíka óhæfu. Frumvarpinu var
flýtt eins og unnt var gegnum allar umræður, en á meðan hömuðust þeir
Halldór og útgefandinn, Ragnar Jónsson, við að koma Laxdælu gegnum
öll stig prentunar. Þetta tókst á tveimur sólarhringum að því er Halldór
segir í formála fyrir síðari útgáfu sinni af Laxdælu (1973), og varð
löggjöfin of sein að því er snerti þessa Laxdæluútgáfu. Onnur grein
þessara dæmalausu laga var svo látandi: „Hið íslenzka ríki hefur eitt
rétt til að gefa út íslenzk rit, sem samin eru fyrir 1400. Þó getur ráðu-
neyti það sem fer með kennslumál, veitt öðrum leyfi til slíkrar útgáfu,
og má binda leyfið því skilyrði, að fylgt sé samræmdri stafsetningu fornri.
Þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar hefur Hið íslenzka fornritafélag heimild
til útgáfu fornrita.“
Þeim Halldóri og Ragnari þótti rétt að láta dómara skera úr um rétt-
mæti þessara laga og gáfu næsta ár út Hrafnkelssögu með nútímastafsetn-
ingu, og án þess að biðja leyfis. Fyrir þá útgáfu fengu þeir fésekt í undir-
rétti, en Hæstiréttur sýknaði þá, þar eð meirihluti réttarins kvað upp þann
274