Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2010, Page 115
115
segja. nefna mætti sem dæmi gangandi vegfaranda sem tekur völdin í
sínar hendur og fer „garðaleið“ í stað þess að ganga eftir sérstökum, þartil-
gerðum gangstígum. Þannig má t.d. sjá fyrir sér safngest sem velur sér sína
eigin leið inni á safni – byrjar sem dæmi frá öfugum enda eða stelst til að
borða nestið sitt á klósettinu.
Sýningarhönnuðir og safnafræðingar hafa undanfarið lagt töluverða
áherslu á þetta virka hlutverk áhorfenda. Í grein sinni „Performing the
Museum“ ræðir Charles R. Garoian um söfn sem leikrænan vettvang (e.
performative site). Að hans mati eiga safngestir að taka þátt og gefa um
leið hinum sjónræna texta mismunandi merkingu eftir þeim bakgrunni
sem þeir hafa. Til þess að slík samræða geti orðið gefandi og frjósöm þurfa
söfn þó að vera „opin“ og ráða yfir tækni sem virkjar áhorfendur til þátt-
töku og umhugsunar.28 Þegar hefur verið nefnt hvernig hið undirliggjandi
vald safna geri áhorfandann í reynd valdalítinn. Það setur safngestinn strax
í ákveðið form hvernig honum er gert að borga aðgangseyri, fylgja ákveðn-
um reglum og hafa hægt um sig. Hann er „gestur“ og þeir fá yfirleitt ekki
að ráða miklu. Að virkja safngesti reynist því oft erfitt. Kannski má líkja
þessu við þá reynslu að fara í bíó eða leikhús þar sem vaninn er að njóta
sýningarinnar án verulegrar þátttöku.
Í þennan sama streng togar Susan E. Crane en hún hefur m.a. velt fyrir
sér hlutverki safna þegar kemur að því að móta og miðla ákveðinni þekk-
ingu. Menntun, menning og minningar eru alltumlykjandi þræðir um
hvern safngest – ef heimsóknin er vellukkuð. Í póstmódernískum anda
telur Crane gesti vissulega hafa ýmislegt um merkingarmótunina að segja
en bendir þó á að merkingarheimur safnsins sé ævinlega sá sami. Að henn-
ar mati er þar oftar en ekki að finna leiðbeiningar í hinum ýmsu samfélags-
legu reglum og kóðum, ákveðin innræting hvað varðar menningarlegt læsi
og viss upphafning á fortíðinni, vísindum og listum.29 Í framhjáhlaupi má
einnig velta fyrir sér hvers vegna neyslumenningin sé í þeim forgrunni
sem raun ber vitni en víðast hvar eru nú safnbúðir og/eða kaffihús hluti af
hverju safni.30 Crane virðist að mörgu leyti sammála Garoian því að bæði
telja þau að líta megi á söfn sem einhvers konar leikrænan samræðuvett-
28 Charles R. Garoian, „Performing the Museum“.
29 Susan A. Crane, „Memory, Distortion and History in the Museum“, bls. 46.
30 Í þessu samhengi má benda á áhugaverða umfjöllun Zigmunt Bauman í Consuming
Life (2007) þar sem hann ræðir um aukna áherslu á manneskjuna sem neytanda í
opinberu rými.
MÓTMÆLASTREnGUR Í ÞJÓÐARBRJÓSTinU