Skírnir - 01.01.1968, Síða 152
150
SIGURÐUR LÍNDAL
SKIRNIR
litið er á hvort tveggja, ólíkar stefnuskrár og forystulið þversumarms Sjálf-
stæðisflokksins, er sú ályktun nærtækust, að skyldleiki þessara tveggja hreyf-
inga hafi verið mjog fjarlægur og sé raunar næsta óljós, þannig að róttækni í
sjálfstæðismálinu og róttækni í innanlandsmálum hafi engan veginn þurft að
fara saman.
Ég hef fyrir satt, að verkalýðshreyfingin hafi í upphafi verið öldungis ó-
pólitísk og leitt hjá sér að taka afstöðu til þess, hvaða leiðir ætti að fara í
sjálfstæðismálinu. Forystumenn hennar hafi í raun og veru komið úr báðum
flokkum, enda þótt ósagt skuli látið, hvar þeir kunni að hafa verið fjölmenn-
ari. Má hér vekja athygli á því, að Þorvarður Þorvarðarson prentsmiðjustjóri,
sem var á listanum í Reykjavík með Jörundi Brynjólfssyni, var gamall heima-
stjórnarmaður. (Landið, 35. tbl. 1916).
En hver er þá skýringin á samstöðu þessara afla í Alþingiskosningunum
í Reykjavík 1916?
Fyrr á árinu 1916 höfðu farið fram kosningar til bæjarstjórnar í Reykjavík.
Hafði listi verkamanna hlotið mest fylgi eða 911 atkvæði og fengið 3 bæjarfull-
trúa kjörna, en listi heimastjómarmanna hlotið 634 atkvæði og 2 menn kjöma.
Aðrir komu ekki að mönnum í þeim kosningum. Auðsætt var, að verkamenn
áttu miklu fylgi að fagna, enda hafði almennur kosningaréttur verið innleidd-
ur á Islandi árið áður (1915). Sjálfstæðismenn (þversum) virðast hafa gripið
til þess ráðs að styðja frambjóðendur Alþýðuflokksins, enda hefðu heima-
stjórnarmenn annars kostar líklega fengið báða þingmennina. Athyglisvert er,
að blaðið Landið beitir útilokunaraðferð, þegar það tekur afstöðu til frambjóð-
enda í Reykjavík kosningadaginn 21. ágúst 1916. Áherzlan er ekki lögð á það
að mæla með frambjóðendum Alþýðuflokksins, heldur hitt, að ekki sé unnt
að kjósa frambjóðendur hinna flokkanna. Nú var Jörundur Brynjólfsson gam-
all sjálfstæðismaður, enda þótt hann væri frambjóðandi Alþýðuflokksins. Hef-
ur það gert gömlum sjálfstæðismönnum auðveldara að styðja framboð hans,
jafnvel þótt þeir aðhylltust ekki að öllu leyti skoðanir hans á innanlandsmál-
um. Slíkt var raunar ekkert einsdæmi, því að í kosningunum 1903 hafði Jón
Jensson yfirdómari boðið sig fram í Reykjavík sem landvamarmann, en hafði
áður fyllt flokk valtýinga, og naut hann stuðnings hinna gömlu fylgismanna
sinna, enda þótt þeir aðhylltust ekki þá róttæku stefnu í sjálfstæðismálinu, sem
Landvamarflokkurinn boðaði.
Stefán Jóhann segist hafa haft samúð með framboði Jörundar og einnig
með hásetum í verkfallinu 1916, en þó verið óráðinn í afstöðu sinni til stjóm-
mála. Þetta stendur þó ekki lengi, því að árið 1918 gengur hann í Alþýðu-
flokkinn og 5 árum síðar (1923) er hann frambjóðandi flokksins í Eyjafjarð-
arsýslu.
Smávægileg ónákvæmni er í frásögninni af þeim kosningum, sbr. I, bls. 121.
Þar segir, að fylgið í Eyjafjarðarsýslu hafi skipzt milli framsóknar- og sjálf-
stæðismanna. Nú var gamli Sjálfstæðisflokkurinn að mestu undir lok liðinn,
en núverandi Sjálfstæðisflokkur ekki stofnaður fyrr en 1929.