Skírnir - 01.01.1974, Qupperneq 16
14
KRISTJÁN ELDJÁRN
SKÍRNIR
að ýmsu leyti hátt menningarlega, og einmitt ekki síst í listum,
skáldskap eða orðlist, og einnig öðrum listum ýmsum. Um þetta
þarf ekki að fara í grafgötur, því að list þeirra og forfeðra þeirra er
enn til, þótt í brotum sé, myndlist fræg um allar jarðir og skáld-i
skapur í hávegum hafður á menningarbólum um víða veröld. Heims-
skáldið Auden taldi það verðugt viðfangsefni anda sínum að snúa
þeim skáldskap, eddukvæðum, á enska tungu ekki alls fyrir löngu,
og undi vel því andlega samneyti.
Skáldskaparlistin kom til íslands með mönnunum, en myndlistin
á undan þeim. Það var þegar öndvegissúlur Ingólfs Arnarsonar rak
á land hér við Arnarhól, nálægt þeim stað þar sem nú erum vér.
Þar mundi hafa verið útskurður á eða höggnar myndir í ætt við
þær sem eru á stefni fornrar konungssnekkju eða drottningar, sem
kennd er við Ásuberg og nú gnæfir hátignarlegust skipa á Norður-
löndum. Síðan þau kefli rak hér á fjörur eru nú liðnar réttar ellefu
aldir. En einu hundraði ára síðar lét listglaður bændahöfðingi reisa
stórhýsi, sem þeirrar tíðar menn kölluðu eldhús, vestur í Hjarðar-
holti, meira og betra en menn höfðu fyrr séð. Voru þar markaðar
ágætlegar sögur á þilviðinum og svo á ræfrinu, og svo vel var það
smíðað að þá þótti miklu skrautlegra er tjöldin voru eigi uppi. Og
úr því að sögumanni þykir í frásögur færandi að skemmtilegra hafi
verið að horfa á þessi listaverk, þegar ekki var breitt fyrir þau, má
nokkuð þar af marka, hvílík fyrirbreiðsian hefur verið. En þegar
algjört var eldhúsið, var haldin mikil veisla, og að því hoði var
skáldið Ulfur Uggason og hafði ort kvæði um listbóndann Ólaf
Höskuldsson og um sögur þær er skrifaðar voru á eldhúsinu og
færði fram kvæðið þar að boðinu.
Þarna voru þá Dalamenn og halda fyrstu listahátíðina á íslandi
fyrir þúsund árum, og vantaði ekki með öllu fulltrúa fyrir list-
greinar þær flestar, sem nú eru á boðstólum á listahátíð 1974. Þarna
voru arkitektar og meistarasmiðir á torf og grjót og tré, listmálarar
og teiknarar, myndhöggvarar eða tréskurðarmenn, veflistamenn,
skáld og framsagnarmenn, sem færðu fram kvæði um dramatískar
sögur, svo að nálgaðist leiklist, og líklega var drepið undir fram-
sögnina á einhvern þann hátt að kalla mætti tónlist, kannski ekki
alls kostar ólíka eða óskylda sumum tilbrigðum nútímatónlistar.
Ilver veit? Þeir kölluðu kvæðið Húsdrápu.