Skírnir - 01.01.1974, Blaðsíða 194
188
HEIMIR PÁLSSON
SKÍRNIR
Einar segir sjálfur í eftirmála útgáfunnar 1922: „Jeg dróst undir-
eins á unga aldri mjög fast að „Pjetri Gaut“ - og svo var um aðra,
jafnaldra mína og skólabræður."4 Erfitt er að sjá þess nákvæmlega
stað í verkum Einars hvenær hann hefur ,dregist að’ „Pétri Gaut“
en benda má á óljósa og fremur almenna líkingu með sumu í „Pétri“
og Ijóðaleik Einars „Skáldacongressinum á Parnassi“.5 Varla getur
þó sú líking talist ná til annars en bragarháttar og ef til vill marg-
skiptingar vísuorða í tilsvör. „Skáldacongressinn“ kvað Einar í
Kaupmannahöfn 1885, og í sjálfu sér er ekkert ósennilegt að um
svipað leyti hafi kynni þeirra Péturs Gauts hafist.
Enginn vafi getur leikið á að Einar var ákaflega hrifinn af
„Pétri Gaut“ - eins og raunar fleiru frá Ibsens hendi. Er þar ekki
aðeins vitnisburður öll sú vinna sem hann hefur á sig lagt við þýð-
inguna á „Pétri“, heldur einnig sú staðreynd að hann skrifaði um
Ibsen langa grein í Skírni árið 1906, og veit ég ekki betur en Ibsen
væri eina erlent stórskáld sem Einar hefði svo mikið við. Auk
„Péturs“ þýddi hann eitt kunnast kvæði Ibsens, „Abraham Lin-
colns mord“,6 og í greininni 1906 birtist þýðing á niðurlagserindi
kvæðisins „Lysræd“. Ekki er í sjálfu sér þörf neinna útskýringa á
þessum áhuga á erlendu stórskáldi, en vel mætti ein ástæða hans
vera að Einari hafi verið ljós „skyldleiki sinn við Pétur Gaut og
örlög hans“ eins og sagt hefur verið í öðru sambandi.7
Um ágæti þýðinganna skal ekki fjölyrt hér. Um „Pétur Gaut“
hlýt ég að vísa til áðurnefndrar ritgerðar minnar, þar sem reynt
var að gera einhverskonar úttekt á starfi þýðandans, en óhætt sýn-
ist mér að fullyrða að vinsældir „Péturs Gauts“ á Islandi, bæði sem
leikhússverks og lestrar, sanni að þýðingin standi mæta vel fyrir
sínu. En nú skal vikið að eiginlegu tilefni þessa greinarkorns.
í athugasemd við Kvæðasafn Einars Benediktssonar árið 1964
segir Pétur Sigurðsson:
SIGURPÁLL ÁRNASON frá Skógum í Reykjahverfi varð úti haustið 1889.
Systir hans, Rósa, hafði lengi verið ráðskona hjá Benedikt Sveinssyni, föður
Einars. Einar flutti kvæði yfir gröf Sigurpáls á Húsavík, en hélt því ekki til
haga. Þessi þrjú erindi úr kvæðinu eru prentuð eftir minni Hólmfríðar, dóttur
Sigurpáls, í EimreiSinni 1948, bls. 224-226, og í Lausu máli, bls. 551.8
Erindin sem þarna um ræðir og höfðu ekki birst meðal ljóða
Einars fyrr en 1964, hljóða þannig: