Skírnir - 01.01.1974, Blaðsíða 34
32 PREBEN MEULENGRACHT SÖRENSEN SKÍRNIR
og Hólmsteini? Venjan var, að mægðir tækjust milli fjölskyldna,
sem jafnræði var með. Ef fjölskyldu af lægri stigum gafst kostur
á að mægjast annarri fjölskyldu af hærra félagslegu stigi, gilti engu
að síður reglan um jafnræði að forminu til, og mágsemdirnar fólu
þess vegna í sér aukin völd og virðingu. Frá þessu sjónarmiði ætti
það að vera fóstbræðrum til framdráttar að mægjast Hólmsteini.
Frásögnin svarar ekki beinlínis spurningunni, hvers vegna fóst-
bræður synja þessu. Að vísu væri hægt að skilja orðin „Leifur
roðnaði á að sjá” sem vísbendingu um leyndar ástir með þeim
Helgu. En slík rómantísk skýring hrekkur varla til að skýra,
hvers vegna fóstbræður slíta samskiptum við jarlsættina og hreppa
landflótta fyrir. Skýringar þess verður að leita í hinum félagslegu
aðstæðum.
Ástæðan til að upp úr slitnar með fóstbræðrum og jarlssonum
mun vera sú, að rangt er farið að kvonbænunum. Hólmsteinn biður
ekki Helgu með venjulegum og löglegum hætti, beldur krefst henn-
ar: „Að þeirri veislu strengdi Hólmsteinn heit, að hann skyldi eiga
Helgu Arnardóttur eða öngva konu ella.” Með því að fylgja ekki
hefðbundnum reglum um gjaforðssamninga, leiðir Hólmsteinn í
ljós forræði jarlsættarinnar, en því geta fóstbræður ekki unað.
Heitstrengingin er atlaga að sjálfræði fóstbræðra. „Um þessa heit-
strenging fannst mönnum fátt,“ segir í sögunni.
Athæfi Hólmsteins má bera saman við frásögn Egils sögu af því,
þegar Björgólfur tók Hildiríði Högnadóttur frillutaki.32 Hér eins
og víðar í fornsögunum er þess konar hjúskapur merki um félags-
legt jafnvægisleysi, sem að jafnaði leiðir af sér vandamál. Mág-
semdir voru mikilvægar í samskiptum fjölskyldnanna. Ef einhver,
eins og Hólmsteinn eða Björgólfur, hlýddi ekki reglunni um, að
mægðir skyldu stofnast með löglegum samningum milli jafningja,
varð ráðahagurinn ekki til þess að staðfesta það friðsamlega jafn-
vægi, sem var grundvöllur ættasamfélagsins, heldur ítrekaði hann
forræði eins ætthóps fyrir öðrum. Sú fjölskylda, sem varð fyrir
slíku misrétti átti aðeins um tvennt að velja, annaðhvort að lúta kúg-
uninni, eins og Högni og viðurkenna lægri félagslega stöðu sína,
eða neita eins og Ingólfur gerði. Þá hlaut sverðið að skera úr af-
stöðu fjölskyldnanna sín á milli.
Þetta svar við spurningunni, hvers vegna landnámsmenn héldu