Skírnir - 01.01.1974, Blaðsíða 254
248
RITDÓMAR
SKÍRNIR
um lærdómsríkt, þótt á annan hátt sé. í lok bókarinnar eru nokkrar myndir aí
ýmsum sögustöðum landsins og Reykjavík. Prentun og frágangur allur eru til
fyrirmyndar.
Magnús Pétursson
M. I. STEBLIN-KAMENSKIJ :
OCERKI PO DIAXRONICESKOJ FONOLOGII
SKANDINAVSKIX JAZYKOV
(Rannsóknir á sögulegri fónólógíu skandinavískra tungumála)
Izdatel’stvo Leningradskogo Universiteta. Leningrad 1966
Þótt liðlega átta ár séu liðin frá því, að þessi bók prófessor Steblin-Kamen-
skijs kom út, hefur verið undarlega hljótt um hana. Er það miður, því að hér
er um að ræða stórmerkt rit, sem að miklu leyti fjallar um íslenzkt efni og á
því mikið erindi til íslenzkra fræðimanna.
Bókin er safn ritgerða höfundar, sem birzt hafa áður í sovézkum og erlend-
um tímaritum, en formálinn og inngangsritgerðin eru samin fyrir bókina sér-
staklega. Ritgerðirnar eru valdar með tilliti til þess, að þær snerta allar að
einhverju leyti efnið „hvernig eiga hljóðbreytingar sér stað“. Miðað við upp-
runalega gerð eru ritgerðirnar þó ekki óbreyttar. Sumar eru verulega styttar
og breyttar og fela í sér ný sjónarmið miðað við þau, sem komu fram í frum-
gerðinni. Ritgerðasafnið er að því leyti áhugavert, að þar má rekja sums
staðar þróun málvísindalegrar hugsunar höfundar. Slíkt er þó nokkurs virði,
því að Steblin-Kamenskij er óumdeilanlega meðal merkustu vísindamanna,
sem í seinni tíð hafa sinnt íslenzkum fræðum.
I fyrstu ritgerðinni „Um kenningu hljóðbreytinga" (bls. 4-24) rekur höf-
undur, hvernig uppgötvun hljóðlögmála er einn kafli í sögu mannlegrar hugs-
unar. Þar kemur fram, að hjá Rask táknar hugtakið „stafur“ nokkuð líkt og
fónem í nútímamálvísindum. Höfundur ræðir einnig ýtarlega mun á sam-
tímalegri og sögulegri hljóðbreytingu eftir anda Saussures og rekur ástæðurn-
ar fyrir því, að einungis hinar síðarnefndu hljóðbreytingar urðu rannsóknar-
efni sígildra málvísinda. Hann telur, að það sé að miklu leyti vegna þess, að
hin sígildu málvísindi byggðust á rituðum heimildum (bls. 9) og var því fyrir-
munað að greina mun á hljóðfræðilegum og fónólógískum breytingum. Hljóð-
fræðileg breyting gerist smám saman, en fónólógískt séð er sú breyting aðeins
afbrigðabreyting (changement allophonique). Fónemið getur aldrei verið mitt
á milli tveggja fónema. Fónólógísk breyting gerist því skyndilega. Grundvallar-
munur er því á þessum tvenns konar hljóðbreytingum (bls. 10).
Grundvallarkenning höfundar er sú, að málið sé ætíð ófuUkomið kerfi, sem
innri og ytri þættir orki á víxlverkandi, skapandi og eyðileggjandi. Þar af
leiði, að orsakir hljóðbreytinga séu margar. Ekki sé hægt að komast fyrir end-