Skagfirðingabók - 01.01.1979, Blaðsíða 14
SKAGFIRÐINGABÓK
að lit, ættaður úr Kolkuósi, ágætur skeiðhestur, skapgóður og
hrekklaus. Þessum hesti unni Jón framar öðrum skepnum. Hann
valdi heyið, sem honum var gefið, smágert valllendishey, sérstak-
lega vel þurrkað og ilmandi. Við sama borð setti hann þó áburð-
arhest sinn, Stólpa, en hann var sannkallaður stólpagripur, stærri
en hestar yfirleitt og traustur vel, hvítur að lit.
Spori hét eftirlætishundur Jóns, hann var feitur og stór og
bar þess merki, að ekki var sparað við hann í mat, enda gaf Jón
honum margan bitann af diski sínum. Ef Jón fór af bæ, varð að
loka Spora inni, og þótt margir tímar liðu, unz honum var hleypt
út, gat hann rakið slóð húsbónda síns og fundið hann. Þegar Jón
fór í langar verzlunarferðir til Sauðárkróks, sat Spori hjá.hestum
og reiðverum og gætti þeirra. Venjulega leið alllangur tími þar
til Jón hafði lokið erindum sínum, og er hann kom til að leggja á,
kunni Spori sér engin læti fyrir fögnuði. Þetta yljaði Jóni svo
mjög, að vel mátti greina viðkvæmni í svipnum.
Þessir tryggu vinir hans, Kaffon og Spori, voru áttaviti og radar
á hættulegum ferðum í stórhríðum og myrkri. Oftar en einu sinni
lét Jón alla stjórn ferðarinnar á þeirra herðar, og gafst vel. Þegar
þessir vinir hans voru felldir fyrir aldurs sakir, var sem hjartkærir
ástvinir væru kvaddir.
Jón gegndi ýmsum störfum fyrir sveit sína. Hann var sýslu-
nefndarmaður um 20 ára skeið, í hreppsnefnd sat hann í 12 ár
og meðhjálpari var hann um langt tímabil við Viðvíkurkirkju,
sat árum saman í sóknarnefnd og var safnaðarfulltrúi.
Oll störf, sem Jóni voru falin, rækti hann af stakri alúð og
vandvirkni. Sem meðhjálpari var hann einstakur, lét sig aldrei
vanta, hversu sem viðraði. Þrátt fyrir háan aldur, kom hann á skíð-
um, ef ekki var fært á annan hátt. Hann var vel til fara í dökku
sparifötunum, á gljáfægðum skóm. Með úrfestina framan á vestinu
stóð hann, myndarlegur á velli, karlmannlegur og festulegur, las
bænina skýrum rómi, ófeiminn, en þó tilgerðarlaus. Jón söng ætíð
með kórnum í kirkjunni, og var mikill sjónarsviptir að honum,
er hann hvarf frá Viðvíkurkirkju. Jón var trúmaður mikill, og
má þar til nefna, að ætíð er hann fór að heiman, staldraði hann
12