Skagfirðingabók - 01.01.1979, Blaðsíða 47
KARÓLÍNA KROSSINN BER
I hirzlum mínum liggur töluvert efni, sem ég skráði eftir Sig-
urði á Borgarfelli. Meðal þess er saga sú, sem brátt kemur. Sigurð-
ur lét mig heyra hana á fyrstu samfundum okkar, 1969. Lunginn
úr henni er það gamall, að Sigurður hlaut að fara eftir annarra
orðum, og var heimildarmaður hans gömul kona í Villinganesi.
Hún hét Helga Jóhannesdóttir. Sigurði lá hlýtt orð til hennar og
hafði margt numið af henni í uppvexti sínum. Helga Jóhannes-
dóttir var úr Eyjafirði fram, fædd 17. september 1841, en fluttist
vinnukona í Skagafjörð 1872, með Jónasi Jónssyni ,Iækni‘ og
Guðríði Jónasdóttur konu hans, foreldrum Jónasar síðar prests á
Hrafnagili, þegar þau fóru að Tunguhálsi búferlum. Hún átti
heima í Villinganesi samfleytt frá 1876 til dauðadags, 18. nóv-
ember 1920. Helga var ákaflega minnug og fróð, sagði Sigurður,
kunni mikið úr rímum og ljóðum, var vel lesandi, en hafði lítið
lært að draga til stafs. Eftir að hún komst upp, lifði hún ávallt í
annarra þjónustu og var með fádæmum húsbóndaholl.
Hér lýkur nú formála fyrir sögu Sigurðar Eiríkssonar áður-
nefndri. Hún hljóðar á þessa lund:
JÓN heitinn í Villinganesi var heldur lítill vexti, þrekinn,
rauðbirkinn, skeggjaður og alveg sérstakt snarmenni. Hann
var vinnuharður og uppstökkur, en raungóður og sáttfús.
Hagmæltur var hann nokkuð. Guðmundur faðir hans hafði
eitt sinn búið í Villinganesi. Hann eignaðist á yngri árum
dóttur, sem hét Karólína. Ekki veit ég, hvort hann kom að
norðan þessi Guðmundur, en að minnsta kosti var hann þar
um skeið, og þar varð Karólína eftir.
Þegar Guðmundur var orðinn bóndi í Villinganesi, tók
hann þessa dóttur til sín að norðan. Hún var máttlaus, gat
enga björg sér veitt, rétt ekið sér áfram á gólfinu. Jón hálf-
bróðir hennar, þá ungur, var látinn bera hana út í sólskinið,
þegar gott var, og hann sagðist stundum hafa orðið nokkuð
óvæginn og rekið hana í veggina. Hann gerðist seinna
mikill vefari, sat í vefstól fremst í Villinganesbaðstofu og
45