Skagfirðingabók - 01.01.1979, Blaðsíða 64
SKAGFIRÐINGABÓK
synlegt var að fylgjast vel með þessum hreyfingum tangans, því
hann var landtaka dragferjunnar að vestanverðu. Á ferjustaðnum
var vatnsdýpið nálægt 5—6 metrar, breiddin á Ósnum frá 80
upp í 130 metrar og mismunur á stórstraums flóði og fjöru er
sem næst 160—180 cm í kyrru, en æsist við storm og stórsjóa.
I smástreymi er munur á flóði og fjöru nálægt 80 cm. Meðan
ísa var að leysa var ferjað á handferju. Þegar svo dragferjan hafði
verið viðgerð og bikuð, var hún dregin á flot. Fór maður með
stálvírsstrenginn á stærri prammanum vestur á Tangann. Þar var
stórt og þungt, gamalt skipsanker. I það var stálstrengurinn festur
vel og örugglega. Var svo róið austur yfir og lent undir bjargi
því, sem strengurinn var festur í þeim megin. Þegar maður var
lentur með strenginn, sem nú lá á botni Óssins, var dragferjunni
hrundið alveg á flot og nú brugðið lausa endanum á strengnum
um spilið á dragferjunni, þrjá vafninga. Þá var næst að tengja
aukastreng í ferjuna við festu í landi. Síðan var tekinn endinn
á stálstrengnum, honum brugðið í sterka lykkju, sem var utan
um bjargið, það sem halda átti dragferjunni að austanverðu. Þá
var spilinu snúið og strengurinn þannig strengdur hæfilega mikið.
Var það aukastrengurinn, sem hélt ferjunni fastri, meðan slakinn
var tekinn af vírnum með spilinu, eftir að búið var að festa streng-
inn vel í stroffuna um bjargið. Og þá var allt tilbúið til starfa.
Venjulega hófst vinnudagurinn kl. 8 á morgnana og mátti
enda kl. 8 að kvöldi, en það gekk þó misjafnlega til, stundum
verið að fram til kl. 12 og 1 að nóttu. Þetta var nokkuð í lagi
á sumrin meðan bjart var, en haustmyrkrið var öllu viðsjálla,
einkum þó í illviðrum. En það hvíldi talsverð ábyrgð og vandi á
ferjumanni, hann var í þjónustu- og trúnaðarstarfi og til hans
gerðar miklar kröfur. Allir urðu að komast sinna ferða. Oftast
hófst vinnan að morgni á því að flytja einhverja vestur yfir. Ef
um það bil hálffallið var út eða að, fór ég á handferju fram í
dragferjuna, þar sem hún lá á Ósnum, rétt framan við fjöruborðið.
Væri háfjara, felldi maður planka, sjö tommu breiðan, á ferjuna
og gekk á honum um borð, lagði tréð þvert yfir ferjuna aftast,
leysti hana og spilaði alveg að landi. Þá var fallhleri látinn síga
62