Skagfirðingabók - 01.01.1979, Blaðsíða 68
SKAGFIRÐINGABÓK
lifa enn um bátsrapa og sjóslys. Þegar ég kom á Skagann 1922,
voru þrjár sjóbúðir standandi uppi á bakkanum fyrir ofan götuna,
en komnar að falli. Einni búðinni var haldið við í nokkur ár eftir
það, og var hún notuð til beitingar og geymslu fyrir veiðarfæri
og sjófang. Síðasti formaður, sem hélt bát út úr Ketunni, var þá-
verandi bóndi í Ketu, Magnús Arnason. Hélt hann fjögurra manna
fari úti þaðan á haustin og fram eftir vetri.
Mjög þótti reimt í Ketunni og í sjóbúðatóftunum upp á bakk-
anum, en ekki verða þær sögur sagðar hér, enda búið að skrá
að minnsta kosti sumar þeirra. Þarna í Ketunni var rekaviður
Sveins. Hafði honum verið ekið þangað um veturinn.
Skal nú aftur vikið að Garðari. Þegar Garðar var lagstur, komu
til liðs við þá, sem fyrir voru á bátnum, þeir Magnús Arnason og
Rafn Guðmundsson í Ketu, Jón Þorfinnsson og Skúli Sveinsson,
bændur á Ytra-Mallandi, og Angantýr sonur Jóns. Voru þeir á
báti Magnúsar.
Var strax byrjað að flytja viðinn um borð. Var smærri viður-
inn fluttur fyrst og látinn í lestina, þar til hún var full. Stærri
viðurinn var seilaður aftan í árabátinn og síðan róið um borð
með hann. Honum var síðan raðað á dekkið, í gangana beggja
megin við stýrishúsið, fram með lúkarskappanum og á miðdekkið.
Þegar síðasti farmurinn fór frá landi, fóru þeir Angantýr og Rafn
heim til sín, en hinir þrír, Magnús, Jón og Skúli, urðu eftir til
að hjálpa til að innbyrða viðinn og fara síðan með bátinn til lands
og setja hann.
Er fermingunni var að Ijúka, aðeins tvær stórar spýtur eftir,
bundnar aftan í Garðar, og verið var að innbyrða þá þriðju, valt
Garðar á stjórnborðshliðina. Allur viðurinn, sem var þeim megin,
brundi í sjóinn og mennirnir allir með. Urðu þeir allir holdvotir,
og sumir sukku til botns áður en þeim skaut upp aftur.
Þegar Jóni skaut upp, náði hann handfestu á Garðari, sem nú
lá á hliðinni, en þá skaut Sigurði upp fyrir aftan hann, en fór
strax að sökkva aftur, því hann var í klofháum stígvélum, sem
drógu hann niður. Jón náði í öxlina á honum, og með hjálp
66