Skagfirðingabók - 01.01.1979, Blaðsíða 114
SKAGFIRÐINGABÓK
í Grímsey var sr. Páll í 7 ár og „leið honum þar allvel,“ segir
Sighvatur í Prestaævum sínum.
Til er umsögn biskups um það, hvernig sr. Páll rækti embætti
sitt, meðan hann hélt Miðgarða. Er hana að finna í bréfi, sem
biskup, Steingrímur Jónsson, skrifaði, er hann mælti með að sr.
Páll fengi konunglega uppreisn eftir barneignarbrot sitt árið 1841.
Segir þar, að haustið 1828 hafi hann, févana og framandi öllum
aðstæðum, komið til Grímseyjar. Hann hafi reynzt eyjarbúum vel,
verið greiðvikinn og gestrisinn og alúðarríkur í öllu viðmóti.
Hann sýndi nokkurt framtak í að bæta efnalega afkomu fólksins,
m. a. með því að flytja hest út í eyna, sem enginn var fyrir og
sem allir fengu að nota eftir þörfum. Hann lagði sig í hættur við
fuglaveiðar í þverhníptu bjargi, þar sem aldrei hafði verið sigið
áður. Líklega er það þessi veiðiskapur, sem liggur til grundvallar
þeirri sögu um sr. Pál, að hann hafi verið að vígja bjarg í Gríms-
ey og reka úr því illar vættir, sem þar voru og skáru á festar sig-
mannanna og tortímdu þeim. En sr. Páll seig í bjargið og braut
með hamri hvassar eggjar, sem út úr því stóðu, en lét brúna-
menn syngja hátt á meðan, til þess að ekki heyrðust hamarshögg-
in. En hvað sem um það er, þá er hitt ekki ólíklegt, að prestur
hafi notað hina orðlögðu fimi sína og kunnáttu í að fleyga grjót
til að vera sóknarbörnum sínum til fyrirmyndar í að bera sig
djarfmannlega eftir björginni. Þá tekur biskup fram í bréfi sínu,
að á þeim 7 árum, sem prestur dvaldi í eynni hafi hann endur-
reist kirkjuna, byggt upp prestssetrið og gert umbætur á túninu.
Um embættisþjónustu sr. Páls í Grímsey klykkir biskup út með
því að segja, að Grímseyingar telji hann hafa verið hinn upp-
byggilegasta predikara, og barnafræðsluna hafi hann stundað af
skyldurækni.
Þegar sr. Páll hafði verið fimm vetur í Grímsey, skeði þar at-
burður, sem var færður í frásögn í bundnu máli af ókunnum höf-
undi, og skal nú rakinn eftir þeim heimildum eins og þær koma
fram í Rímu um hrakning Páls prests Tómassonar í Grímsey. Er
sagan sögð þar í 173 erindum eftir frásögn sr. Páls, sem kynnmr
er þannig í 15. vísu:
112