Skagfirðingabók - 01.01.1979, Blaðsíða 46
SKAGFIRÐINGABÓK
var hann búinn að draga nokkuð saman seglin, bjó á Borgarfelli
móti syni sínum og dvaldist heima um sumartímann, en vann á
vetrum suður með sjó, þar sem önnur dætra hans var búföst. And-
legum kröftum sínum hélt hann hressum, og ekki bar hann utan
á sér ýkja greinileg handaför elli og erfiðis.
Sigurður naut engrar skólafræðslu eftir fermingu frekar en
margur maðurinn af kynslóð hans. En hann var svo eðlisgreindur,
næmur á íslenzkt mál, sagnafróðleik og ljóð, að hann gerðist vel
menntur að alþýðlegum hætti. Einnig iðkaði hann vísnagerð í
ígripum sér til hugarhægðar. Hann var prýðisgóður frásagnar-
maður, fór með sögur stillilega og krókalaust. Röddin lá djúpt,
var áferðarjöfn og eitthvað stórt við hana og hreinskorið. Ég heyrði
Sigurð tala af segulbandi skömmu áður en kynni okkar hófust og
ímyndaði mér þegar, að þar sem hann var færi stór maður og
gildlegur álitum. Þá hafði ég aldrei leitt Sigurð á Borgarfelli aug-
um svo ég myndi til, og er þó undarlegt, því strákur var ég fimm
sumur í sveit í Lýtingsstaðahreppi og í þokkabót uppalinn á
Króknum. Svo skökk var hugmynd mín um þennan sögumann,
að ég áttaði mig ekki rétt vel sem snöggvast, þegar hann stóð fyrir
dyrum mínum í fyrsta skipti, kominn af Suðurnesjum samkvæmt
umtali gagngert til að fræða mig um horfna tíð í sveit sinni. Ég
hafði fyrir augum næsta lágvaxinn mann, nokkuð hnellinn, með
svartan kúluhatt á höfði. En vel gazt mér að gestinum og því
betur sem við áttum lengur tal saman.
Við Sigurður Eiríksson hittumst nokkrum sinnum eftir þetta,
og bréflínur fóru á millum okkar. Eitt sinn gerði ég mér góða
ferð til hans suður í Keflavík, en kom því aldrei við að eyða með
honum stund heima á Borgarfelli. Og hann burtkallaðist af þess-
um heimi fyrr en mig uggði. Vafalaust hvarf með honum sitthvað
forvitnilegt úr gömlum tíma. Lítils háttar ritaði hann sjálfur á
síðustu árum sínum, óvanur skriftum, og kom ég því á framfæri
í Skagfirðingabók. Þær ritsmíðar báru góðri stílgáfu vitni, og er
leitt, að Sigurður skyldi ekki hugsa til þess fyrr að færa fróðleik
í letur, með þjálfun hefði honum nægt að festa á blað talmál sitt,
svo óloppið var það og skipulegt.
44