Hugur - 01.01.2016, Síða 41
Heildarsýn 41
er, ef svo má að orði komast, „of mikið“ [„too-muchness“] við það sem er
gefið í einhverju sem bæði ber okkur ofurliði og heillar okkur.46
Að taka undrunina alvarlega sem upphaf og lögmál heimspekinnar er samkvæmt
þessu að viðurkenna að veruleikinn er okkur sem hugsandi verum ávallt að ein-
hverju leyti ofviða, ekki bara vegna stærðar og margbreytileika efnisheimsins,
heldur ekki síður vegna þess að veruleikinn er þrunginn mætti og þýðingu sem við
skiljum aldrei til fulls. Að vera íhugull vitandi maður er að vera opinn fyrir þessari
ofgnótt – þessum mætti veruleikans til að bera skilning okkar ofurliði. Það er í
þessu samhengi sem samlíking Platons um innsta kjarna eða orsök veruleikans –
sem hann nefnir í Ríkinu hið góða – og sólarinnar hittir svo vel í mark.47 Máttur
veruleikans til að bera skilning okkar ofurliði er líkastur mætti sólarinnar til að
blinda okkur. Veruleikinn er huganum það sem sólin er sjóninni.48
Það er nauðsynlegt að taka fram að þessi (platónska) hugmynd um veruleikann
sem leyndardóm felur ekki í sér að veruleikinn sé í eðli sínu óskiljanleg óreiða,
eitthvað absúrd sem vonlaust er fyrir okkur að reyna að skilja. Leyndardómur
veruleikans er þvert á móti fólginn í ofgnótt einhvers sem er í eðli sínu skiljan-
legt, líkt og sólin gerir alla hluti sýnilega þótt hún sé of björt til að við getum
horft á hana sjálfa berum augum. Þess vegna talar William Desmond til dæmis
í framhaldi af ofangreindri tilvitnun um að undrunin birti okkur veruleika sem
sé ofur skiljanlegur eða háður ofurákvörðun (e. overdetermination). Veruleikinn
býður sífellt heim aukinni rannsókn, auknum skilningi, aukinni viðleitni okkar
til að ákvarða hvernig hlutirnir eru, en um leið er hann ávallt viðleitni okkar til
að skýra hann og skilgreina í eitt skipti fyrir öll um megn. Í þessum skilningi er
leyndardómur veruleikans jákvæður; hann nærir sífellt og svalar þrá okkar eftir að
vita meira og skilja betur án þess að við getum nokkurn tíma látið staðar numið
í þeirri sjálfumglöðu trú að við höfum öðlast endanlega heildarsýn eða svör við
öllum helstu spurningum. Að vera heimspekingur er því að missa hvorki móðinn
andspænis leyndardóminum né halda því fram að það sé enginn leyndardómur
þar sem allt sé í raun skiljanlegt.
Einn lærdóm má draga af því sem hér hefur verið sagt um eðli heimspekinnar
og muninum á heimspekilegri rannsókn og vísindarannsóknum. Hann tengist
orði sem ég setti í samhengi við undrunina í umræðu minni hér að framan, án
þess að skýra það nánar. Þetta er orðið theoria sem venja er að íslenska sem hug-
leiðing. Eins og Josef Pieper bendir á er theoria samkvæmt fornum hugmyndum
eiginlegasta virkni skynsemi okkar; sú virkni þegar hugurinn er algerlega opinn
46 Desmond 2012: „Metaphysics and Dialectic“.
47 Í Ríkinu, 509 B, segir Sókrates að hið góða sé orsök tilvistar og veru en sé sjálft „langt handan
verunnar og tekur henni fram að tign og mætti“. Þessi staðhæfing er vissulega leyndardómsfull
eða „myrk“ eins og þýðandinn, Eyjólfur Kjalar Emilsson, bendir á í neðanmálsgrein. Að svo miklu
leyti sem hægt er að skilja hana þarf á hinn bóginn að skoða hana í ljósi þess að það er undrunin
sem leiðir okkur veruleikann fyrir sjónir sem fullan af „tign og mætti“. Það er einungis ef við
tökum undrunina alvarlega sem við getum haft eitthvert hugboð um hvað Sókrates er að fara.
48 Samlíking skilnings og sjónar, og hins góða og sólarinnar, kemur við sögu í VI. og VII. kafla
Ríkisins, sjá Platon 1997. Til dæmis segir í 508 C: „... það sem hið góða er ... gagnvart skilningnum
og hinu hugsaða, það er sólin ... gagnvart sjóninni og því sem sést ...“
Hugur 2017-6.indd 41 8/8/2017 5:53:20 PM