Hugur - 01.01.2016, Qupperneq 175
Sköpun, kerfi og reynsla 175
annars vegar sem áorkandi, og hins vegar sem lýsandi.14 Anscombe hefur þó ekki
í huga í greiningu sinni reynslu af því að vera gerandi eða ætlandi, fyrir henni
vakir greining á því hvernig við tölum um ætlan, og ætlandi athafnir.
Annað dæmi um tvíeðli sem stendur nær viðfangsefni mínu hér, eru Pushmi-
Pullyu-framsetningar, sem voru upprunalega settar fram af Ruth Millikan.15 Sú
útgáfa af hugmyndinni sem ég styðst við er þó að mestu fengin frá Tim Bayne.16
Reynsla sem gerandi, eða upplifun af því að vera gerandi, er flestum nærtæk.
Hugsum okkur að þú standir og veifir hendinni til að kveðja félaga þinn sem er
að fara með rútunni frá BSÍ norður í land. Það er ekki nóg með að þú finnir hönd
þína hreyfast á ákveðinn hátt, sem venjulega er kallað að veifa, heldur upplifir þú
hreyfinguna sem eitthvað sem hefur ákveðið markmið og merkingu, nefnilega að
kveðja. Upplifun þín af þér sem þeim sem hreyfir höndina, er ekki einvörðungu af
einhverjum sem hreyfir hönd, heldur af einhverjum sem er gerandi í merkingar-
fullri athöfn, nefnilega þeirri athöfn að kveðja.17 Þessi upplifun er af hugsun og
athöfn, og ef eitthvað kæmi í veg fyrir annaðhvort athöfnina eða hugsunina, þá
væri upplifunin önnur.
Gerandaupplifun (e. agentive experience) hefur fengið á sig tvenns konar mynd-
ir í heimspeki athafna. Annars vegar er um að ræða kenningar þar sem henni
er lýst sem upplifun sem hefur lýsandi innihald (e. thetic or descriptive). Grunn-
hugmyndin er þá sú að geranda-upplifun sé upplifun á því hvernig heimurinn
er. Hins vegar hefur geranda-upplifun verið lýst sem upplifun sem er áorkandi
(e. telic or directive). Grunnhugmyndin hér er sú að geranda-upplifun einkennist
af því að upplifa sig sem áorkandi, eða sem afl eða vilja sem breyti því hvernig
heimurinn er.18 Tim Bayne hefur sett fram ágæt rök fyrir því að allavega sumum
geranda-upplifunum sé best lýst sem upplifunum sem innihaldi hvort tveggja.
Þessar tvíátta upplifanir (e. Pushmi-Pullyu representations) eiga það sammerkt
að vera upplifun bæði af því hvernig heimurinn er, og af því að vera áorkandi,
því að breyta því sem gerandi hvernig heimurinn er. Við getum tekið dæmi úr
tungumálinu til að skýra betur hvernig upplifanir af þessu tagi eru. Orðin „fundur
er settur“ eru oft notuð til að hefja formlega fundi, t.d. í félagasamtökum. Það
sem setning af þessu tagi gerir, er í raun tvenns konar, annars vegar er hún lýsing
á því hvernig heimurinn er á þessum tímapunkti, það er að segja þeirri staðreynd
að fundur er settur. Hins vegar er hún áorkandi, hún veldur því að fundurinn er
settur, og hann getur ekki verið það án þess að einhver mæli fram þessa setningu,
eða aðra sem hefur viðlíka merkingu.19
14 Anscombe 1957.
15 Millikan 1995.
16 Bayne 2011.
17 Hreyfingar handa og veifingar eru reyndar hálfgert jarðsprengjusvæði innan þeirrar greinar heim-
spekinnar sem fæst við athafnir. Ástæðan er dæmi sem er trúlega ættað frá Wittgenstein, um
vandann við að gera greinarmun á því að lyfta hendi viljandi, og því að það einfaldlega gerist,
t.d. vegna ósjálfráðra viðbragða. Sjá Frankfurt 1988, en þar er trúlega skarpasta og greinarbesta
útleggingin á þessum vanda. Sjá Bayne 2011: 219–220, um nánari greiningu á dæmi sambærilegu
því sem gefið er hér.
18 Bayne 2011: 219.
19 Sjá Millikan 1995: 195. Sjá einnig almennt um þessa tegund málgerða (e. speech acts), Strawson
Hugur 2017-6.indd 175 8/8/2017 5:54:01 PM