Skírnir - 01.01.1974, Page 11
SKÍRNIR
ÞJÓÐHÁTÍÐARLJÓÐ
9
að íslands forni andi og frelsisþrá
varð aldrei séreign einstaklings né stéttar.
Hún átti engu síður samastað
í stafkarls barmi en menntamannsins hjarta.
Og það var ættjörð, saga og móðurmál,
sem sá til þess, að þjóðin lifði af
og mætti aftur fagna sínu frelsi.
Já, lof sé Guði, er lagði oss á tungu
og trúði vorum feðrum fyrir því
máli, er reyndist oss sá verndarvættur,
er hverri ásókn ótta og myrkurs hratt.
A skuggans öld það skóp þau afrek andans,
að list og menntun auðugastrar álfu
vors heims fékk ekki alið önnur dýrri.
Og þaðan átti þjóðin innangengt
í skáldheim þann, er var af henni vaxinn,
og fegurð hans í fátækt sína óf.
Svo eru undur máls vors mikils háttar.
Já, megi það um aldir, ungt og fornt,
geymast í sínum hreinleik himintærum
sem Hávamál og Hallgrímsljóð í senn
og unna oss þess að eignast orð, sem brúi
þau djúp, er skilja hjörtu og þjóðir heims.
Því frelsið eitt er háski og hefndargjöf
án bróðurþels til allra og alls, er lifir,
en samhugur er vegur vorrar auðnu.
Svo geymi Drottins ást vort móðurmál.
VI
Og ennþá kallar ísland vora þjóð
á fund við nýjan árdag sinnar sögu.
Og nýjar aldir blasa oss við augum
í óslitinni fylking eins og fjöll,
er rísa æ hærra, hvert að annars baki,
mót heiði og sól, uns hverfa þau að lokum
í himins eilífð, ofar sjón og skynjun.