Skírnir - 01.01.1974, Blaðsíða 33
SKÍRNIR SAGAN UM INGÓLF OG HJÖRLEIF 31
sem hún yfirgefur, og verður að koma sér upp nýjum tengslum við
aðrar fjölskyldur í nýju landi til þess að geta myndað samfélag að
nýju og viðhaldið ættinni. Eitt meginmarkmið landnámsfrásagn-
anna virðist vera að útskýra, hvernig ráðið var fram úr þessum
vandamálum.
Landnámshópur Ingólfs er eins fámennur og hugsast getur, að-
eins þeir einstaklingar, sem þurfti til að sýna fram á ofangreind
félagsleg vandamál: þremenningar tveir, sem einnig eru fóstbræður,
og systir annars þeirra til þess að sýna þá gjaforðsmöguleika sem
fyrir hendi eru. Af feðrum þeirra er ekkert sagt, og verður að gera
ráð fyrir, að þeir hafi verið látnir.
Sagan byrjar á því, að afar fóstbræðranna, þeir Björnólfur og
Hróaldur, flytjast vegna mannvíga frá Þelamörk til Dalsfjarðar á
Fjölum. Þessi flutningur er fyrirrennari þess, sem verður meginefni
frásagnarinnar.30 Með honum er sýnt, hvernig ættin kemur undir
sig fótum á nýjum slóðum og reynir að hefja samskipti við nýja
nágranna innan sama samfélags. Með því að þetta mistekst, verður
skýrt, hvers vegna fjölskyldan fer út. Þessi kafli sögunnar er á
þessa leið:
Samgangur verður með fóstbræðrum og voldugustu ættinni í
héraðinu, Atla jarli og sonum hans. Það byrjar með því að fóst-
bræður ráðast í víking með jarlssonum. Þar næst bjóða fóstbræður
jarlssonum til veislu um veturinn, og nú mætti vænta, að samband
ættanna staðfestist með giftingu, eins og t. d. félagsskapurinn milli
Berðlu-Kára og Kveldúlfs í Egils sögu að víkingaferðum loknum
staðfestist með því, að Kveldúlfur fær dóttur Kára.31 Enda ætlast
Hólmsteinn til þess að fá Helgu, systur Ingólfs, þeirrar einu konu,
sem getur tengt fjölskylduna annarri fjölskyldu. En fóstbræður
neita, og þar með eru friðsamleg samskipti fjölskyldnanna rofin.
Hefndir jarlssona mistakast, tveir þeirra falla fyrir fóstbræðrum,
og þar með er jafnvægi fj ölskyldnanna raskað svo að ekki verður
úr bætt. Eða með öðrum orðum sagt: þeir fóstbræður koma fram
eins og um væri að ræða samskipti tveggja j afnrétthárra ætthópa,
en atburðir leiða í ljós að svo var ekki, að jarlinn er þeim yfir-
sterkari. Vegna þess að fóstbræður vilja ekki una þessu verða
þeir að láta eignir sínar af hendi og fara úr landi.
Hér má spyrja: Hvers vegna tekst ekki gifting með þeim Helgu