Skírnir - 01.01.1974, Síða 215
SKÍRNIR
MARKMIÐ LANDNÁMABÓKAR
209
um stöðum haft texta sem kemur heim við Melabók, andstætt
Sturlubók. M. a. hefur Styrmishók ekki orðið fyrir áhrifum af
Egils sögu, en af því mætti ætla að Styrmisbók hefði ekki orðið til
miklu síðar en kringum 1220, en það er einmitt sá tími sem af
öðrum ástæðum verður að telja líklegasta ritunartíma þess forrits
sem Melabók er frá runnin.
Um áhrifin frá Ólafs sögu Gimnlaugs munks er næsta torvelt að
fullyrða mikið. Sveinbjörn hefur í því efni einkum stuðzt við rann-
sóknir Bjarnar M. Ólsens, en þó að þær séu hinar merkustu, er við
þær tvennt athugavert: 1) enn skortir nákvæma rannsókn á sam-
setningu og sköpunarsögu Ólafs sögu Tryggvasonar hinnar mestu,
og mér er ekki grunlaust um að Gunnlaugi hafi þar verið eignað
meira en rétt er; 2) orðalags- og stílsatriði sem Birni M. Ólsen
þótti benda til þýðinga úr latínu eru næsta valt einkenni til þess að
eigna Gunnlaugi ákveðna texta; slík stíleinkenni eru býsna algeng í
ritum frá lokum 13. aldar og fram á þá 14., án þess að um beinar
þýðingar úr latínu sé að ræða. Þetta gerir Sveinbjörn sér raunar
ljóst að nokkru leyti (sjá bls. 70-71), en vill þó ekki hafna þeim
ályktunum sem Björn M. Ólsen dró af þvílíkum dæmum.
í sjálfu sér er ekkert því til fyrirstöðu að Sturla hafi þekkt og
notað Ólafs sögu Gunnlaugs, og að þau áhrif sem frá henni kunna
að hafa stafað hafi fyrst komizt inn í Sturlubók. Eitt atriði má
nefna, sem Sveinbjörn drepur aðeins á, en ræðir ekki frekara (bls.
80, 29. nmgr.): Sturla telur Naddodd hafa komið fyrstan til íslands,
en Haukur Garðar. Sveinbjörn ætlar að sögnin um Naddodd sé
komin frá Gunnlaugi og hafi einnig verið í Styrmisbók. Nú segir
hinsvegar síðar í Sturlubók (284. kap.) að Garðar hafi fyrst fundið
ísland, og það sama hefur staðið í Melabók. Þetta hlýtur að vera
ritleif úr forriti Sturlu, sem hann hefur gleymt að breyta eftir að
hann ákvað að telja Naddodd fyrstan. Haukur hefur hinsvegar að
líkindum haldið sér við texta Styrmisbókar, sem hefur þá talið
Garðar fyrstan eins og Melabók. Hvaðan Sturla hefur haft sögnina
um að Naddoddur hafi fyrstur komið til Islands verður ekki vitað,
en ólíklegt er að það hafi verið úr *X, ef kenning Sveinbjarnar er
rétt. Hinu má ekki gleyma að sögnin um að Norðmenn á siglingu
til Færeyja hafi fyrstir fundið ísiand stendur í Historia de antiqui-
tate regum Norvagiensium eftir Theodoricus munk (um 1180); að
14