Skírnir - 17.06.1911, Blaðsíða 73
Vísindastörf Jóns Sigurðssonar.
169
að en að lesa textann. sem Jón hafði til búið, og ef til vill
gera einhverjar athugasemdir, þar sem hann hafði vit
til, Jón og Oddgeir voru aldavinir og hefir samvinnan
víst að mestu verið góð. Það var og ekki óhyggilegt að
hafa Oddgeir sem samverkamann til þess því fremur að geta
fengið styrk til útgáfunnar. Tvö síðustu bindin gaf Jón þó
einn út, og var þá komið að 1859. Þetta verk er eitt hið
þarfasta af verkum Jóns og eiginlega víðtækast að þýðingu.
Það er, eins og lög gera ráð fyrir, fyrst og fremst ótæm-
andi brunnur fyrir lögfræðinga, lagasögu og réttarfar alt.
En það er miklu meira. Það er að sama skapi ótæm-
andi lind fyrir sögufræðinga og þá sem rannsaka vilja
hag landsins á hverjum tima sem er. Það er að eins sá
galli á verkinu, að það er í svo fárra höndum og að það
er flestum ofvaxið að eignast það, þá sjaldan sem það
er í boði í heild sinni. Upplagið var víst aldrei mikið,
því miður. Þótt ekkert annað verk væri teljandi eftir
Jón, mundi þetta halda nafni hans á lofti um aldur og
æfl. Þetta útgáfuverk er og það einasta svo að segja,
sem hann helt áfram eftir 1860; eu þá var tilsöfnuninni
víst löngu lokið, svo að ekki var annað eftir en skipa
efninu og lesa prófarkir.
Arið 1860 kom út síðasta hefti af hinni nafnfrægu
orðabók Sveinbjarnar Egilssonar. Með
sjálfa útgáfuna hafði Jón ekki haft neitt að gera; að
minsta kosti nefnir Jón Þorkelsson ekki neitt þess konar
í ritgjörð sinni um Jón (Tímarit III), og mátti hann vera
því máli kunnugastur, því að hann fór yfir alt handrit
Sveinbjarnar og las prófarkir af verkinu, meðan hann
dvaldi í Höfn. En Jón samdi hinn efnisauðga formála
fyrir orðabókinni. Er þar fyrst um Sveinbjörn sjálfan og
æfi hans, þá um fornan skáldskap og skýrendur hans að
fornu og nýju. Þá er alllangt mál um titil bókarinnar
og út úr þvi rannsakað, hver nöfn »norræn« tunga (dönsk
tunga—norræna—íslenska) hafi haft, og er það alt mjög
fróðlega fram sett og með miklum lærdómi.