Skírnir - 01.01.1940, Blaðsíða 19
16
SigTirður Nordal
Skírnir
um. Þó að Einar tali um, að lífið sé eilíft, er dauðaóttinn
ægilegur veruleiki í hugsun hans (sjá t. d. Húmstíga), og
það er efasamt, hvort hann hefir nokkurn tíma verið sann-
færður um framhaldslíf fyrir einstaklinginn. Hann fann
ekki einungis til þess, að venjulegum, dauðlegum mönnum
væri um megn að skilja guð, torvelt að elska hann. Mað-
urinn gat gert guðdómseðli sitt að synd, umsnúið guðs-
myndinni í djöful, gengið í lið með dauðanum (Svarti skóli,
Draumspá Israfels). Ef til vill hefir hans innsta hugsun
um áhættu mannlífsins verið skyld því, sem Ibsen setur
fram í Pétri Gaut, að maðurinn yrði að ávinna sér ódauð-
leika, að laun syndarinnar væru dauði (útkulnun, sbr.
Pundið).
Það er ein af fjarstæðunum í lífi Einars Benediktsson-
ar, að siðakröfur hans til sjálfs sín voru svo strangar og
háleitar, að honum fannst yfirleitt ekki taka því að gefa
þeim nokkurn gaum í hátterni sínu. Sá guð, sem hann
gerði sér hugmynd um, heimtaði allt. Ekkert fullnægði
þeim kröfum nema að helga æfi sína andanum, hverja
hugsun og lífshræringu. Einar gat dreymt um, að hann
hefði átt að lifa sem heilagur maður. tJr því hann gat
ekki farið „skylduleið andans með brotnar brýr að baki“,
voru honum allir smáskildingar borgaralegra dyggða
og góðverka einskis virði. Það var ,eins og í fjármálun-
um: Nei, stórfé! Hér dugar ei minna! Þá var eins gott
að láta reka á reiðanum. „Annaðhvort mun okkur Krist
meira á skilja en hálft mörbjúga ella munum við verða
vel ásáttir", sagði Þormóður Kolbrúnarskáld, þegar hann
braut föstuna.
Nú má að vísu segja, að Einar hafi bæði gefið keisar-
anum það, sem keisarans var, í þjónustu sinni við hold
og heim, — og guði það, sem guðs var, í skáldskap sín-
um. Hann gat skilið þetta tvennt furðanlega að. Samt
gat hann ekki gleymt því, að þessir tveir heimar voru
tengdir saman í einni persónu, og sú hugsun var honum
ótti og þjáning: