Skírnir - 01.01.1940, Blaðsíða 33
30
Guðni Jónsson
Skírnir
honum hann vera ærið sporadrjúgur. Gunnar átti einskis manns
von á þessum slóðum, svo (að) hann þóttist vera viss um, að þetta
væri útilegumaður. Hann hafði illan bifur á manninum og herti
gönguna sem mest mátti hann; gekk svo lengi dags, að hvorki dró
sundur né saman með þeim. Þegar komið var undir kvöld, fór Gunn-
ar að lýjast, því (að) pósttaskan seig i, eins og við var að búast.
Utilegumaðurinn dregur nú á hann, og seinast er hann kominn á
hælana á Gunnari. Hvorugur talar til annars. Nú ganga þeir stund-
arkorn. Þá finnur Gunnar, að samferðamaður hans fer að stíga fram
á þrúgurnar, og tefur það honum gönguna. Gunnar sér, að svo bú-
ið má ekki standa. Hann snýr sér að samferðamanni sínum og seg-
ir: „Viltu ekki bita, lagsi?“ Hinn játar því. Þeir stanza nú báðir,
og gengur Gunnar þá úr skugga um, að þetta muni vera útilegu-
maður, enda er hann ankannalega klæddur. Gunnar losar um mal-
sekk sinn, en tekur þó ekkert ofan af sér. Hann réttir félaga sínum
bita og fer líka sjálfur að snæða standandi. Útilegumaður spyr
Gunnar, því hann setjist ekki. Gunnar segist ekki vera vanur því á
ferðalagi. Hann stendur sem næst útilegumanninum, því (að) það
var orðið skuggsýnt, en Gunnar vildi fyrir hvern mun vita, hvað
honum liði. Hann þykist vera að gá til veðurs, segir svo við að-
komumann: „Hvernig heldur þú hann viðri úr þessu útliti ?“ Úti-
legumaðurinn gáir líka til veðurs, en þá var Gunnar ekki lengi og
brá hníf sínum á barkann á útilegumanninum. Að því búnu skilur
Gunnar við hann og heldur til byggða. Aldrei komst hann að því,
hvernig reitt hefði af fyrir útilegumanninum. Gunnar sagði frá
sögu þessari á gamals aldri; kvaðst hann halda, að útilegumaður-
inn hefði ætlað að ganga sig uppgefinn og vinna svo á sér“.
Báðar eru sagnir þessar skrásettar í sama héraði af
góðum fræðimönnum, hin fyrri af manni innan úr Eyja-
firði um 1860, en hin síðari í Svarfaðardal um 1877. Ald-
ursmunur sagnanna er því ekki mikill. En þó eru þær
harla ólíkar í aðalatriðinu, viðskiptum Gunnars og útilegu-
mannsins. Er fyrri sagan með miklu meira veruleikablæ
en hin og líkari því, sem ætla má, að Gunnar hafi sjálfur
frá sagt. Er þar m. a. tilgreint, hvar Gunnar var á ferð,
þegar hann hitti útilegumanninn. í seinni sögunni eru
viss atriði eftirtektarverð, svo sem frásögnin um þrúg-
urnar, en annars er hún öll þjóðsögukenndari. Kemur það
heim við það, sem áður er sagt, því að fyrri sagan stend-
ur bæði um stað og aldur nær atburðum en hin, þótt í
hvorugu sé um mikinn mun að ræða.