Skírnir - 01.01.1940, Blaðsíða 121
118
Ólafur Lárusson
Skírnir
neinu af þeim handritum af Hungurvöku, sem nú eru til,
en þau eru öll yngri en ágrip síra Jóns, og þótt þau nefni
þetta ekki, þá kynni það samt að hafa staðið í frumtexta
bókarinnar, og ef svo hefði verið, væri hér um mjög
gamla sögn að ræða. Um þetta verður að sjálfsögðu ekk-
ert fullyrt, en hinu verður ekki neitað, að líklegra virð-
ist, að höfðingi eins og Hjalti hafi búið á einhverri vildis-
jörð niðri í héraðinu en að hann hafi búið langt inni í
afdal, og rústirnar á Skeljastöðum sýna, að þar hefir
ekki verið neitt stórbýli eða höfðingjasetur, og mun
mega telja þær fulla sönnun þess, að Hjalti hafi ekki bú-
ið þar. Sögnin um búsetu Hjalta á Skeljastöðum virðist
því hafa komið upp á 19. öld. Það eru 19. aldar menn,
sem hafa flutt hann þangað og reynt með því að varpa
enn meiri frægð yfir eyðidalinn en áður og gera eyðingu
hans enn átakanlegri. Á bak við þá tilraun virðist hafa
legið sú viðleitni, sem mönnum virðist hafa verið svo
kær, að gera sem allra mest úr hnignun landsins og aft-
urför. Elzta sögnin, sem nú er til, sögn síra Jóns Egils-
sonar, tengir Hjalta ekki við Fossárdal að öðru en því,
að hann hafi haft bú á Sámsstöðum, m. ö. o. haft þar út-
bú eða sel frá Núpi.
Elzta og trúverðugasta sögnin um bústað Hjalta er
því sú, að hann hafi búið á Núpi. En nú segja fornritin
að hann hafi búið í Þjórsárdal og mörgum kann að virð-
ast það fjarri öllum sanni, að telja Stóra-Núp vera í
Þjórsárdal, og væri það að vísu rétt, ef hinni almennu
nafnavenju hefði verið fylgt, en svo sem áður var sagt,
er það jafnmikið brot á henni að nefna Fossárdal Þjórs-
árdal. En eg minntist á það, að hér sunnanlands hefir
orðið dalur verið notað með nokkuð óvenjulegum hætti
í nafngjöfum, og þegar til þess er litið, þá er það í raun-
inni ekki fráleitara, að gefa byggðinni meðfram Þjórsá,
frá Skriðufelli og t. d. niður að Þjórsárholti, nafnið
Þjórsárdalur en að nefna byggðarlögin Laugardal og
Mýrdal þeim nöfnum, og það er sízt óeðlilegra að segja
Stóra-Núp vera í Þjórsárdal en t. d. Efstadal eða Böð-