Skírnir - 01.01.1940, Blaðsíða 203
200
Ritfregnir
Skírnir
mjög veriö þjappað saman og einkum felldur burt mikill fjöldi
orðréttra tilvitnana í heimildirnar. Þó fer því fjarri, að bókin beri
þess nokkurn keim, að hún sé útdráttur úr stærra riti, svo eðlileg
er hún í gerð sinni. Efnið er tekið föstum tökum og hvert orð á.
sitt erindi. Páll Eggert Ólason fer engar krókaleiðir til að draga
upp mynd af Jóni Sigurðssyni. Hann segir sögu hans blátt áfram,
teflir fram staðreyndunum, rekur ætt hans og uppruna, uppeldi og
nám, rannsóknir, ritstörf og óþreytandi baráttu fyrir þjóð sína á
öllum sviðum þjóðlífsins og stjórnmálanna, rekur hvert mál stutt
og skýrt, svo að lesandinn getur gert sér grein fyrir gangi þess, en
hefir jafnframt af stöðugum tilvitnunum til allra heimilda hina
þægilegu tilfinningu þess, að ekki sé farið með laust mál. Þessi
meðferð fleytir lesandanum yfir hina þreytandi ófærð, sem hið
langvinna og sleitulausa þóf stjórnmálabaráttu íslendinga í raun-
inni var. Ósigrandi árvekni, skarpskygni, snilld og stefnufesta for-
ingjans verður leiðarþráðurinn um völunarhúsið og hrífur lesand-
ann með sér. Með því að kynnast öllum hinum ótrúlega margþættu
viðfangsefnum söguhetjunnar, viðhorfi hans til þeirra og lausn
hans á þeim, svo og dómi samtíðarmanna hans, andstæðinga jafnt
og fylgismanna, kemur fram ógleymanleg mynd þess manns, er
aldrei hefir átt sinn líka með þjóð vorri. Saga Jóns Sigurðssonar
er jafnframt saga Islendinga um hans daga, og inngangur bókar-
innar og niðurlag gefa nokkurt yfirlit yfir ástand þjóðarinnar, er
Jón Sigurðsson tók við henni, ef svo má að orði kveða, og svo hvað
hún var komin áleiðis, er hann féll frá.
Bókin er rituð á þróttmiklu dönsku máli, og virðist það ekki
hafa staðið neitt fyrir höfundinum. Efast eg ekki um, að hún yrði
lesin með miklum árangri á Norðurlöndum af þeim, sem einhvern
áhuga hafa á íslenzkum efnum, ef hún næði nú að komast í hend-
ur slíkra manna. Á höfundurinn miklar þakkir fyrir þetta röksam-
lega og vel samda verk, ofan á öll sín önnur stórvirki. Allur ytrí
frágangur er einhver hinn vandaðasti og smekklegasti, sem hér sést.
G. F.
Stefan Zweig: María Antoinetta. Þýtt hefir Magnús Magnússon-
Rvík. Útgef. ísafoldarprentsmiðja h.f. 326 bls.
Stefan Zweig: Undir örlagast jörnum. Fjól’ar SÖgulegar sma-
myndir. Magnús Ásgeirsson íslenzkaði. Menningar- og fræðslusam-
band alþýðu. Rvík 1939. 88 bls.
Stefan Zweig er víðkunnur fyrir skáldrit sín og æfisögur. Hann
er skarpskyggn á sálarlíf manna. Lýsingar hans á umhverfi og
aldarfari eru litskrúðugar og atburðirnir fá í meðferð hans líf og
stígandi. Um leið og hann lýsir Maríu Antoinettu svo að hún verður
lifandi á ný fyrir augum lesandans, kynnumst vér hirðlífinu í Ver-
sölum á þeim upplausnartímum, sem urðu aðdragandi stjórnarbylt-