Skírnir - 01.01.1940, Blaðsíða 69
66
Guðmundur Gíslason Hagalín
Skírnir
— Svona fylgdi hann mér líka, ilmurinn húsfreyjunn-
ar, fylgdi mér dag og nótt, vinirnir. Það verkaði ekki
öðruvísi til að byrja með. Ég var bara einhvern veginn
sæll af því, að vita svona veru til með mér í veröldinni...
Svo kom það. Þurfti ekki mikið til. Hehemm.
Nú fór Símon að róa á bekknum, ýmist aftur og fram
eða til hliðanna. Hann ræskti sig aftur, og svo hélt hann
áfram:
— Einu sinni seint um vorið var ég niðri við sjó. Það
var um kvöld. Ég var búinn að smala lambfénu og draga
silunganet, sem ég hafði lagt á fjörunni. Svo sat ég á
steini með tvo reyðarsilunga á hnjánum, tvo fallega
reyðarsilunga, vinirnir, bláa, bleika og gljáandi. Ég
starði út á sjóinn. Það syntu svanir á víkinni, og það
var eins og blóðug bylgja undan hvítum brjóstunum
á þeim, því blessuð sólin var að ganga undir. Eyjarnar
voru eins og einhver djásn úti á firðinum, og það var
engu líkara en gullfiskar syntu fram úr ánni. Og ég sat
þarna eins og viðundur veraldar.
Þá var allt í einu stutt hendi á öxlina á mér. Ég hrökk
við, og mér varð á að grípa í höndina um leið og ég leit
um öxl. Höndin var lítil og hlý, vinirnir, og svo horfði
ég í augu, sem kvöldsólin þurfti ekki að fegra eða ylja.
Hjartað í mér tók kipp, og þó held ég, að ég hafi ekki
verið hjartveikur á þeirri tíð. Svo stökk ég á fætur, og
auðvitað sleppti ég hendinni. Hvað átti ég að vera að
halda í það djásn?
Hún starði á mig, húsmóðirin, ung og brosandi og
glettin.
— Og þarna situr þú, sagði hún.
Ég sagði ekki neitt, fr.ekar en ég hefði verið staðinn
að ódæði. Svo þagði hún, og ég held að ég hafi bara
staðið þarna og tvístígið eða rólað mér til eins og fá-
bjáni. Loksins sagði hún svo:
— Það er fallegt í Múla í kvöld.
Nú vék ég mér að henni, vinirnir:
— Það væri fallegt í Múla, ef . . . ef maður . . . Ég