Skírnir - 01.01.1940, Blaðsíða 125
122
Veizlugleði
Skírnir
heimanferð ætti að dragast til aftans. Svo bráð var
barnslundin. Reyndar var þá eigi um veizluskrúða að
tefla. Þá gengu sveitadrengir í vaðmálsfötum og þökk-
uðu fyrir, ef þau voru heil, og með trefil um háls, brydda
sauðskinnsskó og húfupottlok, sem svo var kallað.
Fólkið gekk til veizlunnar og tölti ,eg á undan eða
brokkaði. Gatan liggur gegnum hraun og mætti segja
um þann einstig, sem E. B. kveður:
„Og barnsskóm mínum slitu þessir steinar".
Þessi gata varð síðar fyrsti áfangi til kirkjunnar, sem
eg var spurður í út úr Helgakveri. Sú vegalengd er
þriggja klukkustunda gangur, hvora leið, og verða börn
svöng og lúin á þess háttar refilstigum.
Veizlukveldið gerðist bjart og svalt; vindurinn sner-
ist og andaði ofan af landinu. Uppbirta skapaði hélu á
jörðina og tunglsljós féll í skaut dalsins og kveikti í hél-
unni þann eld, sem er að vísu kaldur, en harla fagur, ef
skoðaður er með aðgæzlu. En það neistaflug lætur lítið
yfir sér.
Húsakynni Hraunkots voru í betra lagi, e.ftir því sem
þá gerðist í sveit — framhús, er skiptist í stofu og smíða-
hús, og svo baðstofa, búr og eldhús.
Veizlugestirnir voru 130, ef eg man rétt, og var allur
bærinn fullur af fólki. Virðingamenn fylltu stofuna, kon-
ur og börn og meðalmenn sátu og stóðu þar sem rúm
leyfði, og sumir reikuðu út og inn, sitt á hvað.
Eg reyndi að glíma þá nótt við jafnaldra mína, en
varð undir, og þótti mér súrt í broti.
Þær hnjátur stöfuðu af þrekskorti fremur en ,eljan-
leysi — og er sá harmur bættur fyrir langa-löngu.
Þegar leið á kveldið og kaffidrykkja vel á veg komin,
voru guðaveigar bornar virðingamönnum. Þar voru tveir
hrókar fagnaðar allra mestir: Benedikt Kristjánsson,
prófastur og alþingismaður í Múla, og Sigurbjörn Jó-
hannsson að Iiólmavaði, faðir Jakobínu skáldkonu í
Vínlandi.