Uppeldi og menntun - 01.01.2001, Blaðsíða 111
ROBERT BERMAN o.fl.
Niðurstöður samanburðarrannsókna benda til þess að bæði unglingar og fullorðnir
sýni meiri framfarir í erlendum tungumálum en börn þegar þetta er athugað í til-
raunaaðstæðum. Jafnvel þegar kennsluaðferð er börnunum hagstæð er frammistaða
þeirra lakari en unglinga og fullorðinna (t.d. Asher og Price 1967). Samræmda
enskuprófið var meðal annars lagt fyrir nemendur sem voru á öðru ári (3. önn) og
-fjórða ári (7. - 8. önn) framhaldsskóla. Þó aldursbil þátttakenda í þessari rannsókn sé
þröngt er ástæða til að skoða hugsanleg áhrif aldurs á frammistöðu nemenda á sama
enskuprófinu.
Reynsla margra enskukennara er að nemendur sem lesa ensku mikið utan skóla
standi sig betur í ensku en þeir sem gera það ekki. Nýlegar rannsóknir benda einnig
til þess að frjáls lestur nemenda utan skóla leiði til aukinnar færni í erlendu tungu-
máli (Elley 1991, Krashen 1993, Mason og Krashen 1997), og hafi áhrif á færni þeirra
í ritun (Tsang 1996). Akveðið var að athuga í þessari rannsókn hvaða áhrif frjáls lest-
ur á enskum texta utan skóla hefði á enskukunnáttu íslenskra framhaldsskólanema.
Krashen (1982) hefur haldið því fram að notkun erlends tungumáls í umhverfi
nemenda hafi mikil áhrif á hversu vel þeir læra það. Fræðilegur rökstuðningur fyrir
þessari skoðun hefur að auki komið fram hjá Carla (1996) og Stroller (1988). Rann-
sóknir á áhrifum áhorfs á enskt sjónvarpsefni á kunnáttu nemenda í ensku styðja
þessa skoðun einnig. Til dæmis kemur fram samband á milli áhorfs spænskra nem-
enda á enskt sjónvarpsefni og frammistöðu þeirra í samræmdu enskuprófi þar í
landi (Barcells 1997). Algengara er þó að neikvætt samband komi fram milli sjón-
varpsáhorfs og námsframmistöðu almennt. Þetta á til dæmis við um samband milli
sjónvarpsáhorfs og námsframmistöðu framhaldsskólanema í raungreinum, þar á
meðal íslenskra (Mullis, Martin, Beaton, Gonzales, Kelly og Smith 1998) og tengsl
sjónvarpsáhorfs við lestur á yngri aldursstigum í mörgum löndum (Elley 1992). Aft-
ur á móti er hugsanlegt að annars konar mynstur komi fram þegar tengsl sjónvarps-
áhorfs og enskukunnáttu eru athuguð, einkum með tilliti til þess að mikið af því
sjónvarpsefni er á ensku. Hugsanlegt er því að jákvætt samband sé milli sjónvarps-
áhorfs og enskukunnáttu. Af framangreindum ástæðum var þetta skoðað sérstak-
lega í rannsókninni.
Enskukennarar hafa lengi talið að notkun enskra dægurlagatexta í enskukennslu
hafi jákvæð áhrif á framfarir í ensku. Með hliðsjón af þessu og fyrirferð enskra söng-
lagatexta í dægurmenningu ungmenna þótti áhugavert að athuga í rannsókninni
hvaða áhrif þekking nemenda á enskum dægurlagatextum hefði á frammistöðu
þeirra á enskuprófinu í framhaldsskóla.
Niðurstöður rannsókna benda til þess að færni í móðurmáli hafi áhrif á færni í
erlendu tungumáli (t.d. Bialystok 1991; Collier 1989, 1992, Garcia 1994, Genesee
1987, 1994). Sú skýring hefur verið sett fram af höfundum þessara rannsókna að
þroski hæfnisþátta í móðurmáli, á borð við orðskilning og hugtakaþekkingu, ásamt
námsgetu, læsi og námstækni, hafi áhrif á tileinkun og færni í erlendu tungumáli. í
þeirri rannsókn sem hér er greint frá er hægt að athuga þetta samband. íslensku-
kunnátta framhaldsskólanemanna, eins og hún var metin á samræmdu prófi í ís-
lensku í 10. bekk grunnskóla, er tengd frammistöðu þeirra á samræmdu enskuprófi
í framhaldsskóla.
109