Uppeldi og menntun - 01.01.2001, Blaðsíða 212
LÚTHER, BARNIÐ OG TRÚARTRAUSTIÐ
fyrst sem menntað fullorðið fólk."
Hér er Lúther á öðru máli, veruleiki barnsins er virtur og áhersla er lögð á að
réttur barnsins til lífsins sé til staðar áður en það fæðist og hlutdeild þess í gæðum
lífsins. Það fær sinn rétt frá Guði og maðurinn hefur ekki leyfi til að skerða hann.
Þessi réttur hvílir ekki í sjálfum sér heldur Guði. Þess vegna vitna börn um „almætti,
visku og listfengi Guðs" (sbr. S1 8). Tilvera barnanna er undur og kraftaverk og þau
eru merkasta gjöf Guðs til manna. En mönnunum er svo tamt að líta á þetta undur
sem sjálfsagðan hlut að þeir sjá það ekki.
Lúther talar um þessa blindu í víðara samhengi og gagnrýnir hana í ljósi réttlæt-
ingarinnar af trú. í páfadómi voru menn svo blindaðir af verkaréttlætinu að þeir réð-
ust gegn blessun hjónabandsins og hófu meinlætalífið upp yfir það. Vissulega er
hjónabandið oft erfitt og auðveldara að næra sig í klaustri en í hjónabandi. En Guð
hefur þrátt fyrir allt mótlæti haldið blessun sinni yfir hjónabandinu.
[Hjónabandið] er öruggt tákn frá Guði um að hann er sjálfur andstæðingur
slíkrar pápísku, því hann hefur tekið frá þeim [meinlætamönnunum] bless-
un sína sem er ávöxtur kviðarins. Við myndum missa börnin ef ást og þrá
milli karls og konu væri ekki til staðar. En einmitt ástin veldur því að við
elskum börnin jafnvel þótt þau séu ófríð. Það gerum við vegna þess að þau
eru endanlega verk Guðs sjálfs." [Því] Án Guðs getur enginn getið börn [...]
Af því að þau eru alfarið verk Guðs eins, eiga ekki öll hjón börn, því eins og
stendur í S1 127: „Börn eru gjöf frá Drottni, ávöxtur kviðarins er umbun."9 10
Lúther reynir hér að varpa ljósi á að börnin eru gjöf. Og sjaldan verður fólk eins
sárlega vart við það og þegar þeim er ekki barna auðið. Lúther svarar ekki hvað
valdi heldur vísar til gjafarinnar. Barnið er opinberun á almætti Guðs, það er þvílíkt
undur og kraftaverk að einungis er hægt að skilgreina tilveru þess með því að vísa
til þeirrar staðreyndar að þau eru kölluð til lífsins af Guði, þau eru verk hans og gjöf
til mannanna. Lúther vill með þessum orðum beina sjónum fólks að þakklætinu sem
börnin eiga að kalla fram í brjóstum þess.
Það er því ekki að undra að hann tengir saman barnið við einingu heilags anda
og orðsins. Þeir sem þekkja til guðfræði Lúthers vita hve ríka áherslu hann leggur á
þessa einingu. Það er ekki hægt að skilja orð frá anda því án starfs heilags anda er
orð Guðs manninum hulið og án orðsins vitum við ekkert um Guð. Hið sama á hér
við um barnið. Maðurinn verður að virða það eins og gjöf sem hefur sinn rétt og
vægi. Þannig er barnið einstaklingur og persóna. Og menn verða að virða það sem
slíkt.
3.2 Fæðingin og erfiðleikar hennar
Lúther þekkti vel til þeirra erfiðleika sem fylgdu meðgöngu og vissi að fæðing var
lífshættuleg. Til eru mörg bréf sem Lúther skrifaði til kvenna og eiginmanna þeirra
þar sem hann reynir að styrkja þau á meðan á meðgöngu stendur. Hann leitast við
að glæða von þeirra andspænis óttanum við komandi fæðingu með því að vísa til
þess lífs sem brátt komi í heiminn. Sem eiginmaður og faðir þekkti Lúther sjálfur vel
áhyggjurnar. Tvívegis var hann næstum búinn að missa konu sína í tengslum við
barnsburð. Hann segir:
210
9 WA TR 2, nr. 1598,147, sbr. nr. 1607, 150.
10 WA TR 5, nr. 5189, 2. Lúther þýðir hér ekki „synir" eins og í íslensku þýöingunni held-
ur „börn".