Uppeldi og menntun - 01.01.2001, Page 144
HÁSKÓLAMENNTUN OG BÚSETA
ÁHRIF MENNTUNAR Á ATVINNUTEKJUR
Eins og þegar hefur komið fram telja talsmenn mannauðskenningar að fjárfesting í
menntun skili sér í aukinni framleiðni, tækninýjungum og hærri launum til starfs-
manna. Með hliðsjón af því var sett fram tilgáta er hljóðar svo: Á landsvæðum þar
sem fáir einstaklingar hafa hlotið háskólamenntun eru laun lægri en þar sem mennt-
un er meiri. Jafnframt eru tækninýjungar færri á slíkum svæðum og nýsköpun tak-
markaðri. Er unnt að meta þessa tilgátu með fyrirliggjandi gögnum hér á landi? Það
virðist sem að unnt sé að kanna tengsl menntunar og launa með hliðsjón af talna-
gögnum, en ekki eru til nægjanlega góðar upplýsingar um tækninýjungar og ný-
sköpun eftir landsvæðum hér á landi.
Fyrsta vísbending um að aukin menntun leiði til hærri launa gefur að líta í töflu 5.
Þar sést að launatekjur eru að jafnaði lægstar meðal þeirra sem einungis hafa grunn-
skólamenntun og að tekjumar eru hæstar meðal háskólamenntaðra einstaklinga.
Onnur vísbending er að kanna tengsl háskólamenntunar og tekna á ársverk
skipt eftir kjördæmum landsins. Tekjur eru mjög mismunandi eftir landsvæðum og
stafar það að verulegum hluta af því að hlutfall frumvinnslugreina, þ.e. fiskveiða og
landbúnaðar, er frá mjög lágu hlutfalli upp í 60% af heildarársverkum. Fiskveiðar
eru að jafnaði tekjuhæsta atvinnugreinin og landbúnaður sú tekjulægsta. Til að úti-
loka slíkar sveiflur er mögulegt að reikna tekjur á ársverk án landbúnaðar og fisk-
veiða og reikna síðan frávik frá landsmeðaltekjum eftir kjördæmum.3
Tafla 5. Tekjur eftir menntun einstaklinga samkvæmt
þjóðmálakönnunum Félagsvísindastofnunar 1996-1998.
Meðaltalstekjur á mánuði
Grunnskólamenntun 104.229 kr.
Starfsnám 114.473 kr.
Iðnnám, búfræði, vélstjórn 189.402 kr.
Stúdentar og ýmsir sérskólar 122.057 kr.
Háskólanám (yfirl. 3 ár eða lengra) 207.061 kr.
Mynd 4 sýnir tengsl á milli hlutfalls fólks 18-80 ára með háskólapróf og tekna
skipt eftir kjördæmum. Fylgnin er reiknuð milli fráviks háskólamenntunar og tekna
frá landsmeðaltali. Af myndinni má ráða að um veruleg tengsl er að ræða enda er
fylgni á milli þessara breyta (r = 0,81). Við því er að búast að fylgni sé á milli þessara
breyta þar sem menntun hefur áhrif á laun hjá mörgum stéttum.
Niðurstaða: Þau gögn sem hér hafa verið tilgreind styðja þá tilgátu að laun séu
lægri á þeim svæðum þar sem hlutfall háskólamenntaðs fólks er lágt.
3 Árið 1995 voru ársverk við landbúnað 5.596 (4,5% af heildarársverkum) og við fiskveið-
ar 6.396 (5,2% af heildarársverkum). Eins og fyrr segir eru atvinnutekjur á svæðum þar
sem landbúnaður er mikill allt að 28% lægri en landsmeðaltalið og í sjávarbyggðum eru
atvinnutekjur allt að 23% hærri en landsmeðaltalið. Af þeim sökum er ráðlagt að reikna
atvinnutekjur án þessara atvinnugreina.
142