Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1974, Blaðsíða 20
Norður-Múlasýslu og kvaðst Pétur kosta þingreiðina, heldur en ekki
yrði mætt á þinginu fyrir Norðmýlinga hönd. A þessum árum virð-
ist séra Stefán sækja það fast að fá galdrabókina góðu hjá Pétri, og
Pétur sér fram á það að hann muni ekki, vinskaps vegna við séra
Stefán, fá staðið á móti því að gefa honum bókina. Það er árið
1846. Þá er Pétur yngri Jökull, eða Jökuldælingur sem réttast væri
að kalla hann í sögu, á 18. ári, fæddur 28. október 1828, og nú
verður það hann sem tekur sig til og afritar bókina. Er það Ijóst af
því sem segir í bókinni, að þessu hefur hann lokið á einum vetri
1845-46, þótt undarlegt megi virðast.
Um ár 1850 er talið, að séra Stefán sé búinn að fá bókina í
hendur og nú hugsar hann sér gott til glóðarinnar að geta afmáð
þetta djöfulsins athæfi þeirra Skinnastaðapresta. Nú skal hann þó
halda eldmessu yfir djöflinum, svo hann skuli minnast þess að
hafa komið í Norður-Múlasýslu. Það skíðlogar undir pottunum í
Valþjófsstaðaeldhúsi og prestur skrýðist til messugjörðarinnar
Hann stingur bókinni undir einn pottinn og fórnar höndum í undir-
gefni undir guðs vilja, meðan logarnir sleikja í sig eina af fáum
bókum Islendinga, sem aldrei sigldi til Hafnar. Heimildarmaður að
þessu er Pétur Sveinsson frá Bessastaðagerði.
En það hefur reynzt mikið mál að messa djöfulinn út á þessari
jörð, og eftir sem áður er hann í öllum sínum galdratáknum og
fræði norður á Jökuldal. Á sama tíma sendir séra Stefán Valþjófs-
staðahurðina til Hafnar - á skotspónum -.
Nú má líta á málið: Hversvegna gerast þessi ódæmi á miðri 19.
öld? Og hvað skyldi hafa legið fyrir bókum Islendinga ef þær
hefðu þó ekki komizt allflestar til Hafnar? Ekki skal leiða getum
að því, en fleira er til marks um það, að Islendingar litu ekki stórum
augum á þennan forna frægðararf þjóðarinnar. En hvernig stendur
á því, að Pétur Jökull lætur bókina af hendi? Er hún ekki nægilega
fast skrúfuð í hans sál? Um það þýðir ekki að þenkja. Þó má leiða
getum að því, að hefði bókin verið ættargripur þeirra Hákonar-
staðamanna, komin frá Eggerti afa Péturs Jökuls, hefði hann aldrei
látið hana af hendi. Það má staðhæfa af öllu því sem þekkist um
þessa mikilhæfu menn.
18
MÚLAÞING