Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1974, Blaðsíða 57
Kominn var sími á Fossvöllum og bað móðir mín mig að hringja
til Vopnafjarðar og spyrjast fyrir um Stefán bróður minn, en sím-
inn var í stofu frammi í bæ. Þegar ég kem inn í stofuna sé ég, að
gengið er rösklega fyrir gluggann. Var Stefán þar kominn. Eitthvað
af systkinum mínum var í bæjardyrunum þegar hann kom inn og
hans fyrsta er að spyrja, hvort ég sé kominn af beitarliúsunum. Þau
sögðu það vera. Þá lítur hann inn í stofuna og biður mig að hringja
í Hof í Vopnafirði og hiðja að láta vita í Sunnudal, að hann sé
kominn heim. Ég gerði þetta. Þá var stöðvarstjóri á Hofi sr. Sig-
urður Sívertssen, prestur þar og síðar prófessor og háskólarektor,
og kom hann boðunum áfram í Sunnudal en þangað lá lína frá
Hofi, en Sunnudalsmenn höfðu eftirlit með símalínunni yfir Smjör-
vatnsheiði, meðan hennar naut við, en hún var síðar flutt af Smjör-
vatnsheiði út á Hellisheiði sökum snjóþyngsla.
Þetta var á fyrstu árum landsímans og sveitasími hvergi kominn,
aðeins landsímastöðvar á víð og dreif. Er ég talaði við Hof kváðu
við hvaðanæva spurningar um, hvort Stefán á Fossvöllum hefði
virkilega farið yfir Smjörvatnsheiði þennan dag, svo ótrúlegt þótti
það eins og veðrið hafði verið.
Hundur hafði verið með Stefáni á þessu ferðalagi, en hann kom
ekki til bæjar með honum um kvöldið. Sagðist Stefán ekki muna
með vissu, hvar hann hefði síðast orðið hans var á heiðinni. Höfð-
um við krakkarnir nokkrar áhyggjur um afdrif hans. Á jóladags-
morguninn var komið bjart og gott veður. Vorum við hræður þá eitt-
hvað úti staddir. Sáum við þá, hvar hundurinn kom. Var liann hinn
brattasti að sjá og virtist ekkert hafa orðið fyrir útilegunni. Við
ætluðum að fagna honum sem bezt við gátum, en hann vildi ekki
taka því. Vildi hann ekki koma til okkar, en hlj óp í hringi kringum
okkur og velti sér, en nærri honum fengum við ekki að koma.
Fannst okkur þetta með öllu óskiljanlegt. En skýringu á þessu
fengum við, þegar hann sá Stefán. Ég hef aldrei séð fagnaðarlæti,
hvorki hjá manni né skepnu, eins og hjá hundinum þegar hann
hitti húsbónda sinn. Leit helzt út fyrir, að hann hefði grun um, að
Stefán væri ókominn af heiðinni og myndi þá nokkuð óvíst um
hans afdrif.
mulaþing
55