Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1974, Blaðsíða 52
Þórarinsson, alltaf nefndur Siggi Þór. Hann hafði rekið fé sitt til
beitar um morguninn og var nú þarna kominn með ærnar af Selinu.
Taldi hann það ósvinnu að reka ekki fé til beitar í svona veðri.
Sigurður átti það til að skjótast út í Fossvelli og tefja þar meðan
fé hans stóð á beit, en ekki var hann vanur að skipta sér af fé okkar
á Selinu, og mun ástæðan til háttarlags hans þennan dag hafa verið
sú, að honurn hafi fundizt ég seint á ferðinni, en það stafaði af því,
að ég átti aðeins að gefa fénu en ekki halda því til beitar. Ég sagði
honum, hvað fyrir mig hafði verið lagt, að láta ærnar alls ekki út,
heldur gefa þeim inni, en þar sem þær voru nú þarna komnar og
farnar að dreifa sér um hnjótana, þá taldi ég ekkert saka þó að
þær fengju að stanza þarna á meðan ég færi heim á húsin og tæki
til handa þeim gjöfina.
Siggi hafði verið á leið út í Fossvelli, sem oftar, en við nanari
athugun á veðrinu taldi hann óvarlegt að fara svo langt frá fénu.
Hann hætti því við frekari ferðalög og sneri heim á leið aftur. Við
urðum samferða heim á beitarhúsin. Hélt hann áfram en ég fór inn
í hlöðu sem var áföst við húsin og hóf að losa heyið.
Ég man ekki hvað lengi ég var búinn að bogra við þetta, þegar
mér fannst allt í einu dynja bylmingshögg á hlöðunni. Var höggið
svo snöggt og hart, að mér virtist hlaðan titra við. Ég rauk á
fætur og leit fram um hlöðudyrnar. Stóð þá hríðarmökkurinn inn
um húsdyrnar, sem stóðu opnar, og inn eftir öllu húsi. Var mér
þegar ljóst, að brostin var á iðulaus stórhríð.
Mér varð að sjálfsögðu fyrst hugsað til ánna, sem voru úti. Ég
hentist fram garðann og út úr húsinu. Ég hafði eins og gefur að
skilja ekki mikla reynslu í því að stríða úti í stórhríðum, enda
fékk ég nú að reyna það. Ég var ekki fyrr kominn útfyrir húshorn-
ið, en veðrið tók mig og þeytti mér til, eins og ég væri fis. Missti
ég gjörsamlega allt vald á hreyfingum mínum og hafði engin önn-
ur ráð en að fleygja mér niður, til þess að rekast ekki eitthvað frá
húsunum. Kófiðan fyllti öll mín skilningarvit, svo að ég náði ekki
andanum og þar að auki sá ég ekki glóru. Ég fann því fljótlega, að
úti í þessu veðri gat ég ekkert gert og varð því næsta feginn, þegar
ég komst inn í húsið aftur.
Mér stendur þetta allt fyrir hugskotssjónum enn í dag, sem
50
MÚLAÞING